Laufásvegur 40

43009966_2319713544724700_8255130715771895808_n

Laufásvegur 40 er steinsteypt hús á þremur hæðum, kjallari og tvær hæðir. Húsið var upprunalega múrað og steinað að utan. Síðar hefur verið málað yfir steininguna og lítur það því út eins og hraunað nú. Þakið er hefðbundið valmaþak með steyptum þakkanti/þakrennu. Á húsinu eru þrennar steyptar svalir. Gluggarnir eru vandaðir harðviðargluggar. Bílskúr á tveimur hæðum er við Laufásveg 40, önnur hæð hans niðurgrafin. Húsið var fullbyggt árið 1937 og er því orðið 81 árs gamalt. Hefur húsið hýst starfsemi Stefs (Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar) frá árinu 1970.

Gunnlaugur Halldórsson arkitekt teiknaði Laufásveg 40 fyrir Arent Claessen, stórkaupmann. Það var svo árið 1969 sem STEF, í félagi við Tónskáldafélagið festi kaup á húsinu undir framtíðarstarfsemi beggja félaganna, auk starfsemi FÍH (Félags íslenskra hljómlistarmanna). Starfsemi STEFs hófst þar formlega 1970.

Gunnlaugur Halldórsson arkitekt (1909-1986) útskrifaðist frá Listaakademíunni í Kaupmannahöfn árið 1933, yngstur útskriftarnema þaðan, aðeins 24 ára gamall. Gunnlaugur hefur verið kallaður fyrsti íslenski móderníski sjón¬listamaðurinn. Hann var fulltrúi funksjónalismans; lét notagildi og byggingartæknilega rökvísi ráða í hönnun sinni sem þó einkennist af einföldum formum. Mörg verka hans hans voru framúrstefnuleg á sínum tíma, á árunum eftir 1930. Má þar til dæmis nefna hönnun Gunnlaugs á húsasamstæðu Byggingarfélags alþýðu sem reist var við Hringbraut austan Hofsvallagötu í Reykjavík, samkomuhús Vestmannaeyja á horni Kirkjuvegar og Vestmannabrautar og endurbyggingu Bessastaða á Álftanesi. Breytti hann byggingunum þar úr sveitabýli í þjóðhöfðingjasetur íslenska lýðveldisins.

Í viðhaldsframkvæmdum á Laufásvegi 40 nú, hefur verið skipt um þakefni. Skipt var úr máluðu bárujárni yfir í litað rautt báruál. Steyptur var nýr þakkantur/þakrenna. Á húsið hafa verið sett niðurfallsrör úr eir. Tvennar af þrennum svölum hússins hafa verið endursteyptar og hefðbundnar steypuviðgerðir gerðar á húsinu. Farið var í umfangsmikil gluggaskipti á suður- og austurhlið og gert við glugga á öðrum hliðum hússins. Tréverk hússins var hreinsað og olíuborið og húsið að lokum málað. Við viðhaldsframkvæmdirnar hefur verið leitast við að halda upprunalegu útliti hússins og útfærslum eldri glugga.

Aðalverktaki framkvæmdanna nú er RH Smíðar ehf. Verksýn hefur haft með höndum undirbúning framkvæmdanna og haft með þeim umsjón og eftirlit.

Heimildir:

Fasteignaskrá.

Hörður Ágústsson 2000. Íslensk byggingararfleifð I, Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940.

Pétur H. Ármannsson 2014. Gunnlaugur Halldórsson arkitekt.

Sigurður Reynir Pálsson 1998. Þú skalt ekki stela.