Tungusel 1-7

119973746_3855282194501153_3106870566148038691_n

Tungusel 1-7 er steinsteypt fjölbýlishús, 4 hæðir og kjallari sem er að hálfu leyti niðurgrafinn. Í húsinu eru 32 íbúðir í 4 stigagöngum. Það voru Gísli Halldórsson (1914-2012), byggingafræðingur og arkitekt og Jósef Reynis (1925-2018), arkitekt sem teiknuðu Tungusel 1-7 á Teiknistofunni sf, Ármúla 6 á sínum tíma. Samkvæmt upplýsingum frá fasteignaskrá var lokið við byggingu hússins árið 1978 og er það því 42 ára gamalt.

Í framkvæmdunum nú var húsið háþrýstiþvegið og gert við steypuskemmdir í öllum útveggjum þess. Útveggirnir hafa upprunalega verið steinsteyptir í stálmótum og holufylltir. Eftirtekt vekur „stuðlabergsáferð“ á útveggjum hússins (sjá nærmynd).

Í framkvæmdunum nú var málning leyst af þeim veggjum sem hafa stuðlabergsáferð og farið í allsherjarviðgerðir á steypuskemmum. Þá var ákveðið að bera á veggina þéttimúr. Þar er um að ræða þunna, fínkorna múráferð sem þó er „gufuopin“, þ.e.a.s. múrhúðin hleypir raka út en ekki inn.

Gluggar og hurðir hússins voru upprunalega málaðar með þekjandi viðarvörn. Í fyrri framkvæmd hafði gluggum á einum stigagangi af fjórum í Tunguseli 1-7 verið skipt út fyrir pvc-glugga. Í framkvæmdunum núna hefur stærstum hluta glugga í hinum stigagöngunum verið skipt út fyrir samsvarandi glugga. Skapar það áferðarfallega heildarmynd á húsinu.

Í framkvæmdinni núna voru m.a. endurnýjaðir svokallaðaðir hverfigluggar (veltigluggar) á norðurhlið hússins og í staðinn voru settir „halla & snúa“-gluggar (e: tilt and turn) pvc gluggar. Slíka glugga er bæði hægt að opna inn að ofan, s.s. til loftræstingar, en einnig til hliðar, sem auðveldar þrif ofl. til mikilla muna. Einnig voru endurnýjaðir stórir stofugluggar á suðurhlið hússins

Endaveggir á svölum hússins eru klæddir með rásuðum krossviði en austurgaflinn klæddur með Steni-plötum. Svalahandrið eru steypt með áföstum steyptum blómakerjum.

Á þakinu var málað, galvaniserað bárujárn. Í framkvæmdunum nú var þakpappi og þakjárn hússins endurnýjað og var ákveðið að setja aluzink bárujárn í stað málaða bárujárnsins. Einnig voru allar þaktúður og þaklúgur endurnýjaðar.

Húsið var loks málað, í ljósgráum og dökkbláum lit.

Auk þessa var ákveðið að brjóta upp steypta palla fyrir framan aðalinnganga hússins og gangstéttir að þeim, leggja hitalagnir þar undir og endursteypa síðan palla og gangstéttir.

Viðhaldsframkvæmdir á húsinu hafa staðið yfir frá því í mars 2019 og er verkinu um það bil að ljúka.

Aðalverktaki verksins er Vilhjálmur Húnfjörð ehf og sá Verksýn um undirbúning og eftirlit með framkvæmdunum.

Heimildir:

bmvalla.is

kdshouse.com

teikningar.reykjavik.is