Þessi fallega kirkja, Stykkishólmskirkja hin nýja, stendur við Borgarbraut í Stykkishólmi. Kirkjan stendur hátt og sést víða að, enda er hún eitt af kennileitum Stykkishólms. Kirkjan var teiknuð af Jóni Harldssyni arkitekt en byggingu hennar lauk árið 1990. Var hún vígð 6. maí það ár. Hún er steinsteypt með forkirkju og turni og tekur 300 manns í sæti. Fletir á ytra yfirborði byggingarinnar eru ýmist sléttpússaðir eða hraunaðir.
Arkitekt Stykkishólmskirkju var Jón Haraldsson. Hann fæddist 17. október 1930 en lést 28. maí 1989 aðeins 58 ára að aldri. Jón lauk stúdentsprófi frá MR 1950 og prófi úr tannlæknadeild Háskóla Íslands 1956. Eftir það nam hann húsagerðarlist í Norges Tekniske Högskole og lauk þaðan prófi árið 1960. Jón stundaði framhaldsnám í Helsinki og starfaði eftir það á teiknistofu í Kaupmannahöfn. Síðar rak Jón eigin teiknistofu í Reykjavík. Teiknaði hann fjölda húsa fyrir einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir. Meðal helstu verka hans eru Stykkishólmskirkja, félagsheimili stúdenta við Hringbraut, heimavistarskóli í Krýsuvík auk heilsugæslustöðva víða um land og íbúðarhúsa.
Stykkishólmskirkja er í eigu Stykkishólmssafnaðar og hýsir m.a. safnaðarheimili en þar eru haldnir listviðburðir yfir sumartímann. Þykir hljómburður í kirkjunni vera mjög góður.
Í viðhaldsframkvæmdum á byggingunni sumarið 2015 var gert við öll þök byggingarinnar en ákveðið var að bíða með endurnýjun á þakefnum þar til síðar. Auk þess voru þá framkvæmdar umfangsmiklar múr- og steypuviðgerðir á kirkjunni og hún máluð. Aðalverktaki í þeim framkvæmdum, en þeim lauk á vormánuðum 2016, var K16 ehf.
Sumarið 2017 voru þakefni allra þaka á bygginunni utan eins endurnýjuð, en áætlað er að ljúka endurnýjun á því nú í sumar. Verktaki þakframkvæmdanna er Fagþak ehf. Nú er einnig hafin vinna við að endurnýja glugga yfir kór kirkjunnar. Verktaki gluggaframkvæmdanna er Gluggar ehf.
Verksýn ehf. hefur haft með höndum undirbúning ofangreindra framkvæmda og haft með höndum umsjón og eftirlit með þeim.
Heimildir:
stykkisholmskirkja.is
Jón Haraldsson arkitekt látinn – Morgunblaðið 30. maí 1989
Jón Haraldsson arkitekt – Minning, Morgunblaðið, 2. júní 1989