Stóragerði 10-14

51695105_2524385214257531_5231682771151224832_n

Stóragerði 10-14 er 5 hæða, steinsteypt fjölbýlishús,4 hæðir auk kjallara. Samkvæmt upplýsingum frá fasteignaskrá var lokið við byggingu hússins árið 1961 og er það því orðið u.þ.b. 58 ára gamalt.

Útveggir Stóragerðis 10-14 eru steinsteyptir og múrhúðaðir og að stærstum hluta kornaðir með salla (steinaðir). Vatnsbretti og gluggakantar við steinaða útveggi eru sléttpússuð og máluð. Einnig veggir inni á svölum og svalaloft. Gluggar eru hefðbundnir trégluggar, ýmist ísteyptir upphaflega eða síðari tíma endurnýjun og eru þeir málaðir með þekjandi viðarvörn. Aðalhurðir og gönguhurðir eru einnig tréhurðir, málaðar með þekjandi viðarvörn. Svalahandrið eru steypt handrið án handlista, með lóðréttum rimum. Eru slík handrið oft nefnd skrauthandrið í daglegu tali. Þakkantur hússins er úr timbri, með listaklæðningu undir. Á þaki hússins er aluzink bárujárn. Flöt steypt þök eru yfir anddyrum. Þakrennur og niðurfallsrör frá þaki hússins eru úr húðuðu stáli en niðurfallsrör frá svölum úr máluðu blikki.

Jósef Reynis arkitekt teiknaði Stóragerði 10-14. Jósef fæddist 11. ágúst 1925 og lést 4. apríl 2018 í hárri elli. Jósef varð árið 1957 einn eigenda Teiknistofunnar hf., sem nú heitir Tark arkitektar ehf. Þar vann hann þar til í júní 2002.

Jósef hannaði á ferli sínum talsvert af íbúðarhúsum, m.a. í miðbæ Reykjavíkur, Vesturbænum og Laugardalnum. Eftir hann standa einnig félagsheimili, s.s. safnaðarheimili Grensássóknar og félagsheimilið Félagslundur í Gaulverjabæjarhreppi. Hér má líka nefna hönnun hans á breytingum húsa Landsímans við Austurvöll, en auk þess fjölda bygginga sem hann hannaði í félagi við aðra arkitekta Teiknistofunnar, m.a. Gísla Halldórsson. Jósef mun hafa verið áhugamaður um laxveiðar og til gamans má geta þess að hann hannaði laxastiga, í Sveðjufossi og fleiri fossum í Langá á Mýrum. Einnig hannaði hann endurbætur í Laxá í Dölum m.t.t. laxagengdar, í félagi við laxaræktarfélag þar á 7. áratug síðustu aldar. Mun þá m.a. hafa verið sprengd renna í sjó út, til að auðvelda göngu laxins í ána.

Í viðhaldsframkvæmdunum á Stóragerði 10-14 að þessu sinni var farið í heildarmúrviðgerðir á suður- og vesturhlið hússins og það síðan endursteinað, en Stóragerði 10-14 er steinað með ljósum salla. Þá var gert við skrauthandrið og skipt um hurðir og glugga eftir þörfum.

Þetta er, að segja má, fjórði áfangi viðhaldsframkvæmda á Stóragerði 10-14 sem Verksýn hefur haft umsjón með undanfarin ár. Áður var skipt um glugga á göflum hússins og suðurhlið þess, auk þess sem þakið var endurnýjað í fyrri framkvæmdum.

Múrkompaníið ehf. voru aðalverktakar framkvæmdanna nú, en Verksýn sá um undirbúning þeirra, umsjón og eftirlit.

Heimildir:

Fasteignaskrá.

gardur.is

tark.is.

Vísir 26. maí 1965. Timarit.is.

Mbl. 24. ág. 1966. Timarit.is.

Mbl. 29. febr. 1980. Timarit.is.

Mbl. 1. des. 1990. Timarit.is.

Mbl. 24. ág. 1999. Timarit.is.