Á sjötta áratugnum, nokkrum árum áður en Kringlumýrarbraut var lögð þvert suður yfir Kringlumýrina, voru sett á skipulag 4ra hæða fjölbýlishús meðfram Stigahlíð, sunnan Miklubrautar. Húsaröðin þar (við Stigahlíð 2-36) er ákveðið kennileiti í umhverfinu og afmarkar íbúðabyggðina frá Miklubraut. Fjölbýlishúsin við Stigahlíðina mynda eins konar horn á mörkum hverfisins og mynda jafnframt skjól fyrir norðanvindi. Enda eru suðurgarðar þessara húsa sólríkir og skjólgóðir.
Stigahlíð 6-12 er steinsteypt fjölbýlishús, 4 hæðir og kjallari. Samkvæmt upplýsingum frá fasteignaskrá var lokið við byggingu hússins árið 1957 og er það því orðið rúmlega 60 ára gamalt.
Það var húsasmíðameistarinn Tómas Vigfússon sem hannaði Stigahlíð 6-12. Tómas Vigfússon fæddist 24. júní 1906. Hann lauk prófi í húsasmíði 1928 og hlaut meistararéttindi 1935. Hann stundaði framhaldsnám í byggingafræði, bæði í Reykjavík og Kaupmannahöfn og var lengi formaður Byggingafélags verkamanna en þar mun hann hafa unnið mikið og gott starf. Hann var auk þess lengi formaður Landssambands iðnaðarmanna og í stjórn Íslenskra aðalverktaka um skeið. Þess má geta að hinn kunni Kjartan Sveinsson tæknifræðingur lærði húsasmíði hjá Tómasi á árunum 1946-1950. Tómas Vigfússon lést um aldur fram árið 1973.
Útveggir Stigahlíðar 6-12 eru steinsteyptir og að mestu steinaðir. Svalaveggir og veggir að kjallara¬inngöngum eru sléttmúraðir. Má segja að litavalið á húsunum ljái þeim sérstakt yfirbragð. Gluggarnir eru trégluggar, málaðir með þekjandi viðarvörn. Aðalhurðir eru yfirborðsmeðhöndlaðar með olíu. Á þökum húsanna var áður rauðmálað bárustál.
Í þeim viðhaldsframkvæmdum sem nú standa yfir hefur verið skipt um þakklæðningu og er nú unnið að frágangi. Var ákveðið að klæða þakið með rauðu báruáli nú. Einnig er unnið að því að skipta um nær alla glugga hússins, auk þakrenna og niðurfalla.
Aðalverktaki framkvæmdanna við Stigahlíð 6-12 er K16 ehf. en Verksýn sá um undirbúning framkvæmdanna og hefur með þeim umsjón og eftirlit.
Heimildir:
http://borgarsogusafn.is/…/atoms/files/skyrsla_163.pdf
Tímarit iðnaðarmanna, 39. árgangur 1966, 1.-2. Tölublað – Timarit.is
Tímarit iðnaðarmanna, 46. árgangur 1973, 1.-4. Tölublað – Timarit.is
www.mbl.is/greinasafn/grein/514543, Katrín Nørgaard Vigfússon
http://mbl.is/…/2014/09/30/andlat_kjartan_sveinsson/
astromix.blog.is