Sólheimar 27

93520333_3402600759769301_1909920786290835456_n

Sólheimar 27 er tólf hæða, steinsteypt fjölbýlishús og eru svalir á allri suðurhliðinni, en suðursvalir fylgja öllum íbúðum í húsinu. Samkvæmt upplýsingum frá fasteignaskrá var lokið við byggingu hússins árið 1960 og er það því orðið u.þ.b. 60 ára gamalt.

Árið 1956 lauk skipulagi íbúðabyggðarinnar í Heimahverfi. Efst á Hálogalandi var skipulögð þyrping 5 háhýsa eða tólf hæða „turna“ sem yrðu áberandi kennileiti í borgarmyndinni. Var þetta í samræmi við stefnu franska arkitektsins Le Corbusier um að byggja þyrpingu háhýsa á hæstu hæðum borga. Íslensku arkitektarnir Gunnlaugur Halldórsson og Guðmundur Kr. Kristinsson voru fengnir til að hanna 2 þessara húsa, Sólheima 25 og 27, fyrir byggingarfélagið Framtak. Auk þess byggðist um þetta leyti hús nr. 23 við Sólheima og er þessi myndarlega þriggja húsa þyrping í daglegu tali borgarbúa gjarnan kölluð „Sólheimablokkirnar“.

Sólheimar 27 varð hið fyrsta af háhýsunum 3 sem reist voru, en ekki varð af því að byggð yrðu fleiri en 3 þeirra. Sólheimablokkirnar sjást víða að í borginni og eru enn það kennileiti sem stefnt var að við skipulagningu hverfisins. Af öðrum háhýsum sem byggð voru í borginni eftir sömu stefnu eru há fjölbýlishús við Austurbrún, við Ljósheima og síðar við Espigerði.

Húsið við Sólheima 27 var sem fyrr segir hannað af arkitektunum Gunnlaugi Halldórssyni (1909-1986) og Guðmundi Kr. Kristinssyni (1925-2001). Gunnlaugur varð arkitekt frá Listaakademíunni í Kaupmannahöfn aðeins 23 ára gamall og var þá yngsti nemandi sem lokið hafði arkitektsnámi þaðan. Guðmundur Kr. var arkitekt frá Tækniháskólanum í Zürich. Þessir tveir arkitektar áttu farsælt samstarf árum saman. Haft er eftir Guðmundi Kr. í bók Hins íslenska bókmenntafélags um Gunnlaug og feril hans að það hafi verið honum (Guðmundi Kr.) „…ungum og lítt reyndum , ómetanleg skólun og veganesti að lenda undir handleiðslu manns sem bjó yfir jafn mikilli og haldgóðri starfsreynslu og hann [Gunnlaugur].“.

Gunnlaugur stofnaði eigin teiknistofu strax að námi loknu, árið 1933. Guðmundur Kr. hóf störf hjá honum fljótlega eftir að hans arkitektsnámi lauk, eða 1953. Samstarf þeirra var farsælt og unnu þeir árum saman að sameiginlegum verkefnum, ýmist á sömu teiknistofu eða hvor á sinni. Sem dæmi um sameiginleg verk þeirra má nefna hönnun Háskólabíós, Sparisjóðs Reykjavíkur við Skólavörðustíg, hönnun forms og útlits stöðvarhúsa Búrfellsvirkjunar, ásamt fleiri byggingum sem tengjast virkjuninni. Auk þess má nefna fjölbýlishús við Kleppsveg og hluta íbúðabyggðar í Fossvogi. Samvinnan stóð fram á 8. áratug 20. aldarinnar en Guðmundur mun snemma hafa orðið hinn leiðandi arkitekt í sameiginlegum verkefnum þeirra.

Sólheimablokkirnar eru um margt merkilegar byggingar og í módernískum stíl. Efsta hæð húsanna (nr. 25 og 27) er sameign, með þvottahúsi/þurrkhúsi fyrir allar íbúðir hússins og svalir. Er það óvenjuleg staðsetning vinnuaðstöðu í fjölbýlishúsum. Úr þessari aðstöðu er frábært útsýni yfir höfuðborgarsvæðið.

Undirbúningur viðhaldsframkvæmdanna á Sólheimum 27 hófst snemma árs 2018 en sjálfar framkvæmdirnar hafa nú staðið yfir í á annað ár, enda um að ræða umfangsmiklar framkvæmdir á húsinu. Í framkvæmdunum nú verður lokið við viðgerðir á öllum veggflötum hússins og það málað.; Gert er við ílögn svala og mála þær. Gluggar á austurgafli, norðurhlið og vesturgafli verða allir endurnýjaðir og settir ál/tré-gluggar í stað upprunalegra ísteyptra timburglugga sem fyrir voru. Einnig er blikkklæðningu á efstu hæð skipt út fyrir loftræsta álklæðningu. Þá er gert við glugga efstu hæðar og hluti þeirra endurnýjaður. Hefur þess verið gætt eftir því sem kostur hefur verið, að breyta útliti hússins sem allra minnst.

Aðalverktaki viðhaldsframkvæmdanna á Sólheimum 27 er K16 ehf. Verksýn hefur umsjón og eftirlit með framkvæmdunum.

Heimildir:

Gunnlaugur Halldórsson arkitekt. Pétur H. Ármannsson. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag 2014.

Morgunblaðið. (1999, 2. febrúar). Reykjavík: Fasteignablað. Mbl.is