Sólheimar 23

13957998_1404228469606550_5449273298682591657_o

Húsið er 13 hæða steinsteypt fjölbýlishús, sem var fullbyggt árið 1961 og er það því orðið um 55 ára gamalt. Húsið hannaði Einar Sveinsson arkitekt og fyrrum húsameistari Reykjavíkur. Húsið var byggt af Byggingarsamvinnufélagi prentara, sem stóð fyrir byggingu mikils magns íbúðarhúsnæðis frá stríðslokaárunum, s.s. við Hringbraut, á Kleppsvegi og í heimahverfinu í Reykjavík. Upphaflega stóð til að byggja 2 háhýsi til viðbótar með sama formi og Sólheimar 23, en þau voru ekki byggð.

Einar Sveinsson lauk prófi frá Tækniháskólanum í Darmstadt í Þýskalandi árið 1932 og hóf eftir það rekstur teiknistofu í Reykjavík. Einar var ráðinn húsameistari Reykjavíkur árið 1934 og gegndi því starfi til æviloka, en Einar lést árið 1973. Einar var afkastamikill hönnuður og hannaði margar þekktar byggingar á Íslandi. Nefna má sem dæmi Heilsuverndarstöðina í Reykjavík (í samvinnu við Gunnar H. Ólafsson arkitekt) Laugarnesskóla og Melaskóla auk fjölbýlishúsa við Hringbraut 37-47 í Reykjavík, m.a. það sem hýsir Björnsbakarí. Hann vann einnig mikið starf í skipulagsmálum Reykjavíkurborgar.

Framkvæmdirnar við Sólheima 23 eru nokkuð umfangsmiklar, en í 1. og 2. áfanga, sem er nú langt kominn, hafa verið unnar gagngerar viðgerðir á útveggjum og endurnýjun á öllum gluggum á fimm hliðum hússins af níu.

Aðalverktaki við framkvæmdirnar er Fasteignaviðhald ehf, en 1. áfangi framkvæmda hófst árið 2015. 2. áfangi hófst snemma árs 2016 og mun honum ljúka nú á haustmánuðum. Allur undirbúningur framkvæmdanna var unninn af Verksýn og höfum við einnig umsjón og eftirlit með framkvæmdunum.

Heimildir:

„Einar Sveinsson arkitekt og nokkur verka hans“ http://www.mbl.is/greinasafn/grein/839780/

https://is.wikipedia.org/wiki/Einar_Sveinsson