Sléttahraun 24-26 er steinsteypt hús á 4 hæðum (3 hæðir og kjallari, sem er að hálfu leyti niðurgrafinn) með tveimur stigagöngum. Húsið var byggt árið 1973 og er það því orðið 46 ára gamalt.
Útveggir Sléttahrauns 24-26 eru steinsteyptir, sléttmúraðir og málaðir. Upphaflega voru í húsinu ísteyptir, málaðir timburgluggar. Í fyrri framkvæmd, fyrir um 6 árum síðan, var skipt um hluta glugga í húsinu og austurgafl klæddur álklæðningu. Auk þess var skorsteinn þá fjarlægður. Þakið er bárujárnsklætt og þakkanturinn klæddur með timburklæðningu.
Viðhaldsframkvæmdirnar að þessu sinni hafa staðið yfir í u.þ.b. ár. Gerðar voru hefðbundnar múrviðgerðir á vesturgafli en suður- og norðurhliðar klæddar með álklæðningu í ljósum lit. Að þessu sinni voru gluggar og hurðir á norðurhlið endurnýjaðar. Hefur hefðbundnum, ísteyptum, máluðum trégluggum í húsinu nú að mestu leyti verið skipt út fyrir ál/tréglugga. Einnig voru í þessari framkvæmd sett upp svalaskýli á allar svalir hússins. Þá var húsið málað. Að þessu sinni var valinn dökkgrár litur á málaða fleti.
Aðalverktaki viðhaldsframkvæmdanna á Sléttahrauni 24-26 að þessu sinni var Magnús og Steingrímur ehf. Verksýn sá um hönnun utanhússklæðningar og hafði umsjón og eftirlit með verkframkvæmdum.