Skaftahlíð 30

19467887_1756048224424571_1841376302241115565_o

Skaftahlíð 30 er steinsteypt fjölbýlishús með 4 íbúðum auk bílskúra, en húsið var, skv. fasteignaskrá, byggt árið 1954 og er það því orðið um 63 ára gamalt. Húsið hannaði Sigvaldi Thordarson arkitekt og húsið prýða hinir þekktu gulu, bláu og hvítu litir, sem eru algengir á húsum hönnuðum af honum. Þessir litir voru vinsælir hjá fleiri hönnuðum á þessum árum, en litirnir eru oft kenndir við Sigvalda.

Eftir að hafa fengið sveinspróf í húsasmíði árið 1934 lauk Sigvaldi prófi sem byggingafræðingur árið 1939 frá Det tekniske Selskabs Skole. Hann lauk svo prófi í arkitektúr frá Listaháskólanum í Kaupmannahöfn eftir síðari heimsstyrjöld. Sigvaldi var afkastamikill á ferli sínum sem hönnuður, en hann lést árið 1964, á 53. aldursári. Óhætt er að segja að hann skipi veigamikinn sess meðal íslenskra hönnuða og er hann ótvírætt einn helsti fulltrúi módernisma í íslenskri byggingarsögu. Meðal íbúðabygginga sem Sigvaldi hannaði má nefna Ægissíðu 80, Skaftahlíð 12-22, fyrir starfsmenn Stjórnarráðsins, og Kvisthaga 13.

Framkvæmdir sumarsins við Skaftahlíð 30 snúa að múr- og steypuviðgerðum á ytra byrði hússins, viðgerðum og endurnýjunum á gluggum og gluggabúnaði. Endurbótum á stálhandriðum, handlistum o.fl. auk málunar alls ytra byrðis hússins.

Verktaki við framkvæmdirnar er Stjörnumálun ehf, en Verksýn ehf. sá um undirbúning framkvæmdanna. Höfum við einnig haft með þeim umsjón og eftirlit. Framkvæmdir voru undirbúnar á seinni hluta ársins 2016 með gerð ástandsskýrslu, en framkvæmdin var boðin út í febrúar sl. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum við húsið muni ljúka á þessu ári.

Heimildir:

„Áhrifamikill arkitekt“, 29. september 2003, http://www.mbl.is/greinasafn/grein/754529/

https://da.wikipedia.org/wiki/Det_tekniske_Selskab