Reynimelur 58

122766020_3960399197322785_2128594518051620806_n

Reynimelur 58 er steinsteypt fjölbýlishús með kjallara, 2 hæðum og rishæð. Útveggir hússins eru steinsteyptir, múrhúðaðir og steinaðir. Gluggarnir eru trégluggar, aðaldyr hússins eru úr harðviði. Á þakinu var upphaflega málað bárujárn eins og tíðkaðist að setja á þök á byggingartíma þessa húss. Bárujárninu hafði í fyrri framkvæmt verið skipt út fyrir litað trapisujárn. Í þakflötum eru hefðbundnir þakveltigluggar (Velux). Upprunalega var þakkanturinn á húsinu steinsteyptur en í fyrri framkvæmd hefur hann verið klæddur með steni-plötum. Niðurfallsrör voru endurnýjuð fyrir ekki mjög löngu síðan og eru úr húðuðu stáli.

Húsið teiknaði Einar Sveinsson, arkitekt (1906-1973). Einar tók lokapróf í arkitektúr frá tækniháskólanum í Darmstadt, Þýskalandi árið 1932. Tveimur árum síðar var hann ráðinn húsameistari Reykjavíkur og gegndi því starfi til æviloka. Í starfi sínu sem húsameistari hannaði Einar m.a. mörg hús í vesturbæ Reykjavíkur, s.s. Melaskóla, en auk þess Laugarnesskóla, Sólheima 23 og fleiri.

Í framkvæmdunum nú var skipt um megnið af gluggum hússins. Ákveðið var að halda sig við tréglugga, eins og hafa verið í húsinu frá upphafi. Á þakinu var þakjárnið endurnýjað með því að litað trapisujárn var fjarlægt en í staðinn sett aluzink bárujárn. Einnig var þakpappi endurnýjaður ásamt borðaklæðningu og hluta Velux-þakglugganna.

Steyptur var upp nýr þakkantur með þakrennum. Með því var þakkanturinn færður til upprunalegs horfs. Útitröppur Reynimels 58 voru múrviðgerðar og filtaðar. Þá voru aðaldyr hússins pússaðar upp og haldið við með viðeigandi efnum. Ákveðið var að fara í heildar-endursteiningu á húsinu – og tókst við það, að nálgast mjög þá litablöndu sem fyrir var á húsinu.

Vesturbær Reykjavíkur er gamalgróið hverfi en slíkum hverfum fylgir oft mikið lauffall á haustin. Lauf vill þá safnast upp í þakrennum og hefur oft verið til vandræða og valdið stíflum í rennum. Í Reynimel 58 var ákveðið að freista þess að leysa það vandamál með því að koma fyrir sérstökum laufgildrum neðst í niðurfallsrör hússins. Þar er um að ræða hallandi grindur sem festar eru neðst í niðurfallsrörin og skilja laufblöð og annað drasl frá regnvatni. Laufið rennur út úr rörinu um op framan á rennunum og vatnið rennur að mestu sína leið niður rörið.

Í viðhaldsframkvæmdunum nú var aðalverktaki Vilhjálmur Húnfjörð ehf en Verksýn hafði með höndum undirbúning og eftirlit með framkvæmdunum.

Heimildir:

teikningar.reykjavik.is

wiki/Einar_Sveinsson