Miklabraut 80-84

69861294_2886584548037594_4836993302626566144_n

Miklabraut 80-84 er steinsteypt fjölbýlishús, 2 hæðir og kjallari, sem er að hluta til svolítið niðurgrafinn. Þrír stigagangar eru í húsinu, Miklabraut 80, 82 og 84. Húsið var byggt árið 1951 og er það því orðið 68 ára gamalt.

Miklabraut 80-84 stendur í röð steinaðra, tvílyftra fjölbýlishúsa með valmaþökum og manngengum risum við sunnanverða Miklubrautina, austan Lönguhlíðar. Þessi húsaröð er einkennandi í götumyndinni, en yfir henni er sterkur heildarsvipur, m.a. vegna áferðar húsanna og efnisvals við byggingu þeirra.

Þórir Grani Baldvinsson arkitekt teiknaði Miklubraut 80-84. Þórir fæddist á Granastöðum í Köldukinn, Ljósavatnshreppi 20.11.1901. Hann lauk gagnfræðaprófi á Akureyri 1922, stundaði námi við MR og nám í arkitektúr við University of California Extension School of Architecture 1924-26. Hann mun hafa verið fyrsti íslenski arkitektinn til að stunda nám í Bandaríkjunum. Þórir var einn helsti boðberi funksjónalismans í byggingarlist hér á landi. Hann teiknaði m.a. Ingólfsstræti 14 í Reykjavík, Samvinnubústaðina vestan Bræðraborgarstígs og í starfi sínu sem arkitekt hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga, Listasafnið á Akureyri. Einnig Bjarnarborgarspítalann í Neskaupstað ásamt Arne Hoff-Møller. Þórir starfaði á Teiknistofu landbúnaðarins (síðar SÍS) í nær fjörutíu ár eða frá 1930 og var þar forstöðumaður frá 1937. Í Bæjarins besta, fréttablaði Vestfirðinga, er vitnað í umfjöllun Ólafs J. Engilbertssonar um Þóri, en hann telur Þóri hafa „nútímavætt sveitirnar“ á Íslandi. Þórir lést 3.10.1986, á níræðisaldri.

Viðhaldsframkvæmdirnar við Miklubraut 80-84 nú hafa staðið yfir frá því í maí 2018. Skipt var um alla glugga hússins, en þeir voru flestir upprunalegir. Sólvarnargler var sett í glugga suðurhliðar og hljóðvarnargler í alla aðra glugga hússins, þ.e. á norðurhlið og göflum. Þá var loftunarventlum komið fyrir utan á veggi norðurhliðar, en slíkir ventlar tryggja loftgæði innandyra þar sem hljóðvarnarglers er þörf.

Farið var í hefðbundnar múrviðgerðir og allt húsið síðan endursteinað. Að þessu sinni var valið að steina húsið með blöndu af hvítum marmarasalla (40%), perlugráum salla (35%) og hrafntinnulíki (25%). Á vatnsbretti og útbyggða kanta voru notuð litahlutföllin 35% hvítt, 30% grátt og 35% svart.

Þá var gert við svalahandrið og efri hluti þeirra endurnýjaður, auk þess sem skyggni og tröppur voru brotnar niður og endursteyptar. Útihurðir voru yfirborðsmeðhöndlaðar, þ.e.a.s. málning var leyst af þeim og þær olíubornar.

Lóðin við húsið hefur einnig verið snyrt, hún hellulögð að framanverðu, sett niður sorptunnuskýli og fleira.

Aðalverktaki viðhaldsframkvæmdanna á Miklubraut 80-84 nú var ÁS – Smíði ehf. en Lóðalausnir ehf. sáu um lóðarframkvæmdirnar. Verksýn annaðist umsjón og eftirlit með framkvæmdunum.

Heimildir:

Minjasafn Reykjavíkur. (2013). Byggðakönnun Borgarhluti 3 – Hlíðar. Skýrsla nr. 163. Reykjavík: Drífa Kristín Þrastardóttir ofl.

Merkir Íslendingar, Þórir Grani Baldvinsson (2012, 20. nóv.). Mbl.is.

Bæjarins besta. (2019, maí). Fengu styrk frá Hagþenki. Bb.is.

DV. (2018, 18. apríl). Reykjavík: Margrét Gústavsdóttir. Fókus: Bjöllur fyrir þjónustufólk í forsköluðum timburhúsum við Ásvallagötu. Dv.is.