Húsið er hefðbundið fjögurra hæða „hlíðahús“ með 8 íbúðum. Húsið er steinsteypt og var það upprunalega „skeljað“, þ.e.a.s. að yfirborð veggja var múrhúðað og skel var kastað í yfirborð múrhúðarinnar. Þak hússins er hefðbundið valmaþak með kvistum. Lokið var við byggingu hússins árið 1948 og er það því orðið um 68 ára gamalt.
Húsið hannaði Aðalsteinn M. Richter arkitekt. Aðalsteinn lauk námi í húsasmíði árið 1934 á Ísafirði og útskrifaðist sem arkitekt í Kaupmannahöfn árið 1944. Hann starfaði hjá Húsameistara Reykjavíkur að námi loknu, ásamt m.a. Einari Sveinssyni húsameistara. Aðalsteinn vann m.a. að innréttingu bæjarstjórnarsalarins í Skúlatúni 2 í Reykavík og hann hannaði Geirsgötu 9. Aðalsteinn vann einnig mikið að breytingum á eldra húsnæði. Hann var skipulagsstjóri í Reykjavík 1959-1982, en hann hafði sótt framhaldsnám í skipulagsfræðum í Stokkhólmi. Aðalsteinn lést árið 2007 og var þá kominn á tíræðisaldur.
Gagngerum endurbótum á ytra byrði hússins er nú að ljúka, en framkvæmdir hófust síðsumars 2015. Helstu þættir framkvæmda eru múrviðgerðir og endursteining, endurbygging þakkants og svala, endurnýjun á stórum hluta glugga og endurnýjun á þaki.
Reynt hefur verið að halda í upprunaleg einkenni hússins, t.d. þakkant, sem var endurbyggður og einnig lóðréttar rendur beggja megin við innganga, sem setja svip á framhlið hússins.
Aðalverktaki við framkvæmdina er Vilhjálmur Húnfjörð ehf. Verksýn sá um allan undirbúning framkvæmdanna, úttekt og útboð og einnig höfum við haft umsjón og eftirlit með framkvæmdum.
Heimildir:
„Bæjarstjórnarsalurinn í Reykjavík“ Tímarit iðnaðarmanna, 32. árg. 4. tbl. 1. ágúst 1959.
http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=4419784
„Aðalsteinn M. Richter“ Minningargrein af www.mbl.is http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1132194/