43746072_2353755141320540_9060376516143087616_n

Laufvangur 1-9 er 4 hæða, steinsteypt fjölbýlishús. Samkvæmt upplýsingum frá fasteignaskrá var lokið við byggingu hússins á árunum 1968-1970 og er það því orðið nær 50 ára gamalt. Í húsinu eru 42 íbúðir, auk sameignarhluta í alls fimm stigagöngum. Á þakinu er ómálað bárujárn, þ.e. aluzink. Neðri hluti svalahandriða er steinsteyptur og málaður en efri hluti þeirra úr máluðu timbri.

Kjartan Sveinsson byggingatæknifræðingur hannaði Laufvang 1-9. Kjartan var fæddur 4. september 1926. Lærði hann húsasmíði hjá Tómasi Vigfússyni byggingameistara 1946-1950 og lauk árið 1955 námi í byggingatæknifræði frá Katrineholms Tekniska Skola í Svíþjóð.

Kjartan starfaði á Teiknistofu húsameistara Reykjavíkur á árunnum 1955-1961. Hann stofnaði eigin teiknistofu 1961 og rak hana í yfir 40 ár. Kjartan teiknaði fyrst og fremst íbúðarhúsnæði, en eftir hann liggja teikningar á u.þ.b. 10.000 íbúðum í fjölbýlishúsum og 5.000 einbýlishúsum og raðhúsum. Þá teiknaði hann Hótel Örk í Hveragerði, skóla, skrifstofu- og iðnaðarhúsnæði.

Kjartan var farsæll í starfi, eftirsóttur hönnuður og þekktur fyrir þann stíl sem einkennir mörg húsa hans. Einfaldleiki, hagkvæmni og notagildi einkenna fjölbýlishús Kjartans, þar sem mikið ber á beinum línum og steinsteypu með fjölbreyttri litaskiptingu. Njóta þessi einkenni sín vel á Laufvangi 1-9. Síðar á ferli sínum varð Kjartan Sveinsson þekktur fyrir glæsilegar útfærslur á einbýlishúsum. Meðal þeirra einkenna eru veglegir þakkantar með láréttu efsta og neðsta borði og lóðréttri klæðningu þar á milli. Er þessi útfærsla jafnan kölluð „Kjartanskantur“. Einnig eru súlur og innfellingar ofan og neðan glugga, einkennandi fyrir sérbýli Kjartans Sveinssonar.

Í framkvæmdunum við Laufvang 1-9 nú, hefur verið komið fyrir sléttri, loftræstri álklæðningu á stórum hluta austurhliðar og tveimur veggflötum vesturhliðar. Útveggirnir eru einangraðir undir klæðningunni og er húsið því að hluta orðið einangrað að utan. Gert hefur verið við glugga og hluti þeirra endurnýjaður. Farið hefur fram niðurbrot og endursteypa á hluta svalagólfa og -veggja. Þá hefur þakrennum og niðurfallsrörum verið skipt út frá því að vera úr plasti/blikki yfir í ál. Loks fóru fram á húsinu múrviðgerðir og það var málað. Að þessu sinni var valið að mála Laufvang 1-9 í hvítum og gráum lit.

Aðalverktaki viðhaldsframkvæmdanna nú er byggingaverktakinn K16 ehf. Verksýn sá um undirbúning og hefur umsjón og eftirlit með framkvæmdunum.

Heimildir:

Fasteignaskrá.

Andlát: Kjartan Sveinsson. Mbl. 30.9.2014.