Langholtsskóli

263270606_5169805149715511_6510298074264896996_n

Framkvæmdir mánaðarins í nóvember eru viðhald- og endurnýjun á þakefnum í miðálmu Langholtsskóla, sem fóru fram í sumar. Í framkvæmdunum var bárujárn á þökum endurnýjað ásamt undirþaki. Klæðning á kvistum var endurnýjuð ásamt kvistgluggum, en einnig voru endurnýjaðir þakgluggar ásamt fleiru.

Bygginguna teiknuðu arkitektarnir Einar Sveinsson, húsameistari Reykjavíkur, og Gunnar H. Ólafsson. Fjallað var um störf Einars í umfjöllun okkar um framkvæmd mánaðarins í ágúst 2016, við Sólheima 23. Einar var húsameistari Reykjavíkur frá 1934-1973, en hann var menntaður arkitekt frá Darmstadt í Þýskalandi.

Gunnar H. Ólafsson fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð árið 1915. Eftir að hafa lokið stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1936, hélt hann til Noregs, þar sem hann lauk burtfararprófi sem arkitekt frá Tækniháskólanum í Þrándheimi árið 1940. Hann kom ásamt fjölskyldu sinni til Íslands að loknu stríði og hóf störf hjá Teiknistofu húsameistara Reykjavíkur, en þá var Einar Sveinsson húsameistari.

Þeir tveir unnu saman að hönnun margra bygginga, m.a. Heilsuverndarstöðvarinnar við Barónstíg og Landspítalans í Fossvogi (Borgarspítalinn) en af öðrum byggingum sem Gunnar hannaði má t.d. nefna Heilsugæslustöðina í Hlíðum (byggð sem dælustöð) og Hólmavíkurkirkju. Hann vann 1. verðlaun í samkeppni vegna íbúðarhúsa í smáíbúðahverfinu í Reykjavík o.fl. Eftir 10 ára starf hjá húsameistara var Gunnar skipaður fyrsti skipulagsstjóri Reykjavíkur, en hann gegndi því embætti allt til æviloka. Gunnar lést á sumardaginn fyrsta árið 1959, á 44. aldursári, eftir stutt veikindi.

Verktaki framkvæmdanna í Langholtsskóla var Gímó ehf, undirbúningur framkvæmda var unninn af Eflu verkfræðistofu, en Verksýn hafði umsjón og eftirlit með framkvæmdunum fyrir hönd Reykjavíkurborgar.

Heimildir:

Byggingarlistin, tímarit Arkitektafélag Íslands, 1. tbl. janúar 1960.

Morgunblaðið, 30. apríl 1959, Gunnar Ólafsson skipulagsstjóri, minningarorð.