Langahlíð 19-25

431490673_810134884463125_4607697260420052637_n (1)

Framkvæmdir mánaðarins í mars eru endurbætur ytra byrðis við Lönguhlíð 19-25. Óhætt er að segja að “Lönguhlíðarblokkin”, á horni Lönguhlíðar og Miklubrautar, skipi mikilvægan sess í byggingarsögu Íslendinga og sé merkilegt kennileiti í borgarmyndinni, en húsið var byggt á árunum 1946-1949.

Á sínum tíma var Langahlíð 19-25 stærsta fjölbýlishús landsins, en í húsinu eru fjórir stigagangar þar sem eru 8 skráðir eignarhlutar í hverjum þeirra – samtals 32 íbúðir. Reykjavíkurbær stóð fyrir byggingu hússins, en bygging þess var liður í að mæta húsnæðisskorti sem varð í kjölfar hernáms landsins á stríðsárunum. Áður hafði bærinn staðið fyrir svipuðum íbúðabyggingum við Hringbraut 37-47 og við Skúlagötu 64-80, nú Bríetartún.

Húsið við Lönguhlíð 19-25 var hannað af arkitektunum Einari Sveinssyni, húsameistara Reykjavíkur, og Gunnari Ólafssyni, en þeim hefur báðum verið gerð ágæt skil í fyrri greinum hjá okkur um framkvæmdir mánaðarins.

Árið 1995 kom út áhugaverð samantekt um starfsævi Einars Sveinssonar, þar sem Lönguhlíðarblokkin er eitt af viðfangsefnunum. Aðstandendur útgáfunnar voru Reykjavíkurborg og Listasafn Reykjavíkur. Þar kemur m.a. fram að við byggingu hússins reyndist erfitt að útvega iðnaðarmenn til starfa, enda mikill uppgangur í byggingargeiranum eftir stríðslok. Því urðu tafir á verkefninu. Þá fékk framkvæmdin ekki ríkislán, líkt og fyrri framkvæmdir, á þeim forsendum að um of dýra og vandaða framkvæmd væri að ræða í samanburði við t.d. verkamannabústaði þess tíma, að mati ríkisins. Þrátt fyrir mótbárur og m.a. greinargóð skrif Einars um kosti bæjarbygginganna, voru slegin af áform um frekari byggingu fjölbýlishúsa með þessum hætti á vegum bæjarins.

Í nýlega loknum framkvæmdum var ráðist í heildar endurbætur á ytra byrði hússins, að undanskildu þakinu, en það var endurnýjað í fyrri framkvæmdum. Helstu framkvæmdir núna voru gagngerar múr- og steypuviðgerðir ásamt endursteiningu, endurnýjun og viðgerðir á gluggum og hurðum, endurnýjun niðurfallsröra o.fl. Í fyrri framkvæmdum höfðu útveggir, svalir o.fl. verið málað, en í framkvæmdunum nú var ákveðið að hreinsa málninguna af útveggjunum og koma þeim í upprunalegt horf með steiningu.

Verktaki framkvæmdanna við Lönguhlíð 19-25 var Stjörnumálun ehf, en við hjá Verksýn unnum að undirbúningi þeirra og höfðum umsjón og eftirlit með framkvæmdunum fyrir hönd húsfélagsins.

Heimildir:

Einar Sveinsson: „Húsnæðisvandamálið og íbúðarbyggingar Reykjavíkurbæjar“. Morgunblaðið, 13. október 1948, bls. 10 – Eggert Þór Bernharðsson: Saga Reykjavíkur. Borgin 1940 – 1990. Fyrri hluti, bls. 306.

Morgunblaðið, 30. apríl 1959, Gunnar Ólafsson skipulagsstjóri, minningarorð.