Kleppsvegur 136-140

125560376_4020939671268737_3081235814208021659_n

Kleppsvegur 136-140 er 4 hæða, steinsteypt fjölbýlishús en neðsta hæðin er niðurgrafin til hálfs. Útveggir hússins eru sléttpússaðir og málaðir. Flatt þak er á húsinu og upphaflega voru í því hefðbundnir trégluggar og harðviðarhurðir. Samkvæmt upplýsingum frá fasteignaskrá var lokið við byggingu hússins árið 1966 og er það því u.þ.b. 54 ára gamalt.

Í viðhaldsframkvæmdunum nú var öll framhlið hússins endurnýjuð. Farið var í umfangsmiklar múrviðgerðir í kringum gluggana og þeir endurnýjaðir. Ákveðið var að skipta út hefðbundnum trégluggum fyrir ál/tréglugga. Gert var við svalir, sem höfðu verið endursteyptar í fyrri framkvæmd og járnhandrið hreinsuð upp og endurmáluð.

Ákveðið var að setja utanhússklæðningu á framhlið Kleppsvegar 136-140, en framhliðin er, ásamt suðurgafli, mesta áveðurshlið hússins. Gert var við frostskemmdir í múr, framhliðin einangruð að utan, sett upp álundirkerfi og klætt með sléttri, ljósri álklæðningu.

Skipt var um allar aðaldyraeiningar, sem eru úr mahogany. Þá var skipt um allar svalahurðareiningar og niðurfallsbrunnar endurnýjaðir. Innveggir á svölum og aðrir steyptir fletir voru málaðir og tröppur filtaðar.

Kjartan Sveinsson byggingartæknifræðingur teiknaði Kleppsveg 136-140. Kjartan var fæddur 4. september 1926. Hann lærði húsasmíði hjá Tómasi Vigfússyni byggingameistara og lauk árið 1955 námi í byggingatæknifræði frá Katrineholms Tekniska Skola í Svíþjóð.

Kjartan starfaði á Teiknistofu húsameistara Reykjavíkur, stofnaði eigin teiknistofu 1961 og rak hana í yfir 40 ár. Kjartan teiknaði fyrst og fremst íbúðarhúsnæði og eftir hann liggja teikningar á ógrynni íbúða í fjölbýlis- og raðhúsum ásamt einbýlishúsum. Þótt Kjartan hafi mest teiknað af íbúðarhúsnæði, þá liggja einnig eftir hann hótelbygging, skóla, skrifstofu- og iðnaðarhúsnæði.

Kjartan var farsæll í starfi, eftirsóttur hönnuður og þekktur fyrir þann stíl sem einkennir mörg húsa hans. Einfaldleiki, hagkvæmni og notagildi einkenna fjölbýlishús Kjartans, þar sem mikið ber á beinum línum og steinsteypu með litaskiptingu. Njóta þessi einkenni sín vel á Kleppsvegi 136-140.

Í viðhaldsframkvæmdunum á Kleppsvegi 136-140 nú, var aðalverktaki K16 ehf. en Verksýn undirbjó framkvæmdirnar og hafði með þeim umsjón og eftirlit.

Heimildir:

Fasteignaskrá.

Teikningar.reykjavik.is

Andlát: Kjartan Sveinsson. Mbl. 30.9.2014