Hringbraut 85

17620270_1645872652108796_188767112070836373_o

Verkið hófst í apríl 2016 með endurnýjun frárennslislagna hússins og settar voru drenlagnir umhverfis húsið. Í kjölfar þeirra framkvæmda var farið í utanhússframkvæmdir á húsinu. Þær framkvæmdir fólu í sér gagngerar endurbætur á öllu ytra byrði hússins ásamt steinsteyptum stoðveggjum.

Hringbraut 85 er þríbýlishús, byggt árið 1941 samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá og er það því orðið u.þ.b. 76 ára gamalt. Um er að ræða steinsteypt hús með steinuðu yfirborði í tveimur litum og bárujárnsklæddu valmaþaki. Gluggar hússins eru hefðbundnir trégluggar.

Húsið teiknaði Sigmundur Halldórsson arkitekt og fyrrum byggingarfulltrúi í Reykjavík, en hann hannaði m.a. fjölda sambærilegra húsa í Melahverfinu og víðar. Sigmundur var fæddur árið 1898 og lauk námi í trésmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík með ágætis einkunn vorið 1922. Hann lauk svo námi í húsagerðarlist vorið 1928, einnig með ágætis einkunn. Hann rak eigin teiknistofu í Reykjavík, m.a. í samstarfi við Einar Sveinsson arkitekt, og sinnti margvíslegum félagsmálum en hann var m.a. liðtækur í golfi. Sigmundur lést í febrúar árið 1964, þá 66 ára gamall.

Framkvæmdir miðuðu að því að koma húsinu í eins gott ástand og frekast var kostur. Allir gluggar hússins á austur- og suðurhliðum voru endurnýjaðir og gert var við aðra glugga og hurðir. Svalir voru lagfærðar og endursteyptar. Kvistur á þaki á bakhlið var lagfærður og skipt var um bárujárn á þaki og farið í nauðsynlegar lagfæringar á þakvirki hússins. Auk þessa voru þakrennur endursteyptar og miðað að því að færa húsið sem næst sinni upprunalegu mynd. Þá var farið í gagngerar viðgerðir á steinsteypu hússins áður en húsið var að lokum endursteinað.

Í kringum suma glugga og hurðir hússins eru steyptir ferhyrndir kantar sem eru kornaðir í öðrum lit en aðalfletir hússins. Setur það sérstakan svip á þá byggingarhluta. Segja má að svona glugga- og hurðakantar séu einkennandi fyrir hús sem byggð voru í eldri hverfum Reykjavíkur á stríðsárunum og fram undir 1955 og sjást víða í Melahverfinu og í Hlíðunum.

Verktaki lagnaframkvæmda var B. Markan ehf. og aðalverktaki utanhússframkvæmda var Spöng ehf. Verksýn sá um undirbúning og hafði umsjón og eftirlit með framkvæmdunum.

Heimildir:

Vísir – miðvikudagurinn 4. mars 1964. Minning um Sigmund Halldórsson eftir Einar Sveinsson. http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2371097