Hraunbær 8-12a

22688050_1876926405670085_745138198603573711_n

Hraunbær 8-12a er framkvæmd mánaðarins hjá Verksýn nú í október. Samkvæmt upplýsingum frá fasteignaskrá var lokið við byggingu hússins árið 1967 og er það því orðið um hálfrar aldar gamalt. Húsið er 4 hæða og steinsteypt, með sléttmúruðum útveggjum.

Þessi hluti byggingarinnar (Hraunbær 8-10-12 og 12a) var teiknaður af Bárði Daníelssyni verkfræðingi og arkitekt í október 1965. Bárður fæddist þann 26. október 1918 á Kirkjubóli í Önundarfirði. Hann lauk prófi sem verkfræðingur frá Konunglega tækniháskólanum í Stokkhólmi árið 1948 og árið 1960 lauk hann prófi í arkitektúr frá sama skóla. Meðal bygginga sem Bárður hannaði má nefna Austurstræti 17, Skipholt 49-55 auk nokkurra húsa í Vogahverfi í Reykjavík og fjölda annarra bygginga. Bárður lést árið 2012, á 94. aldursári.

Viðhaldsframkvæmdir við Hraunbæ 8-12a hafa staðið frá því snemma árs 2017. Skipt hefur verið um alla glugga á suður- og austurhliðum. Einnig var skipt um hluta glugga á norður- og vesturhliðum og gert var við aðra glugga þar. Þá voru framkvæmdar múrviðgerðir á útveggjum og svalagólfum og skipt um niðurfallsbrunna, þakrennur og hluta af þakkanti. Húsið var sílanbaðað og verið er að leggja síðustu hönd á málun þess. Þá er verið að ljúka við heildarendurnýjun þaksins.

Aðalverktaki framkvæmdanna er K16 ehf. og sá Verksýn um undirbúning og hefur með þeim umsjón og eftirlit.

Heimildir:

http://borgarsogusafn.is/…/atoms/files/skyrsla_151.pdf

http://www.mbl.is/…/2012/03/09/andlat_bardur_danielsson/