Hjarðarhagi 24-32

145746278_4240192616010107_3225302611817972072_n (1)

Húsið er gjarnan kallað ”Kennarablokkin”, en það var byggt af Byggingasamvinnufélagi barnakennara í Reykjavík. Byggingu þess lauk árið 1956 skv. fasteignaskrá.

Helstu framkvæmdir við húsið fólust í endurnýjun á töluverðum hluta af gluggum hússins, þar sem notast var við ál-tréglugga. Tveir þakfletir eru á húsinu, en þakjárn var endurnýjað á neðri þakfleti hússins, en þakjárn á efri þakfleti hússins var málað. Steyptir fletir voru málaðir að undangengnum múrviðgerðum og háþrýstiþvotti. Eldri gluggar og annað tréverk var einnig málað ásamt öðrum viðgerðum. Viðhaldsframkvæmdum á verkstað lauk síðla árs 2020.

Kennarablokkina við Hjarðarhaga 24-32 hannaði Skúli H. Norðdahl arkitekt. Skúli fæddist árið 1924. Að loknu stúdentsprófi nam Skúli arkitektúr við Tækniháskólann í Þrándheimi frá 1947-1951 og í framhaldi nam hann skipulagsfræði í Stokkhólmi og starfaði þar við Borgarskipulag Stokkhólms. Skúli rak teiknistofu í Reykjavík frá árinu 1954, en á starfsævi sinni var Skúli m.a. skipulagsstjóri Kópavogs 1969-1989.

Hann varð árið 1953 meðlimur í Húsameistarafélagi Íslands og var kjörinn ritari félagsins 1954. Hann gengdi lengi trúnaðarstörfum fyrir félagið, en nafni þess félags var breytt árið 1956 og hefur síðan heitið Arkitektafélag Íslands. Meðal bygginga sem Skúli hannaði má nefna Vídalínskirkju og safnaðarheimili hennar í Garðabæ, Suðurlandsbraut 6, barnaskóla á Flúðum auk fjölda einbýlishúsa o.fl. Skúli lést í janúar 2011.

Verktaki framkvæmdanna var Vilhjálmur Húnfjörð ehf, en Verksýn sá um undirbúning þeirra ásamt umsjón og eftirliti með þeim.

Á vefnum er að finna ýmsa greinarstúfa og fróðleiksmola um Kennarablokkina við Hjarðarhaga, m.a. skrifaða af fyrrum íbúum hússins.

Heimildir:

Minning – 18. febrúar 2011, Skúli H. Norðdahl arkitekt.

Vesturbæjarblaðið – nóvember 2006, ”Kennarablokkin í Vesturbænum 50 ára!

Vesturbæjarblaðið – desember 2016, Minningabrot frá fyrstu árum Kennarablokkarinnar, Hjarðarhaga 24-32, Höf. Hulda Hjörleifsdóttir.