Helgafellsskóli

56523240_2609629342399784_5789090150881427456_n

Skólinn stendur við Gerplustræti 14 í bænum. Um er að ræða grunn- og leikskóla fyrir börn á aldrinum 6-15 ára.

Við hjá Verksýn erum byggingastjórar á verkinu og höfum eftirlit með framkvæmdinni fyrir hönd Mosfellsbæjar. Í hlutverki Verksýnar felst daglegt eftirlit með framkvæmdinni, samskipti við verktaka og hönnuði ásamt ýmsu öðru sem sinna þarf við slíka framkvæmd.

Fyrsta skóflustungan að Helgafellsskóla var tekin 7. desember 2016. Heildarstærð hússins verður 7.300m² og verður það byggt í fjórum áföngum. Lokið var við fyrsta áfanga byggingarinnar og hann tekinn í notkun í janúar 2019.

Nú er unnið að fjórða áfanga sem er innrétting leikskóla á 2. hæð hússins. Er áætlað að verklok leikskóla verði um mánaðamótin júní/júlí og að starfsemi hefjist í honum haustið 2019

Hönnun skólans er á höndum Yrkis arkitekta ehf. en VSB- verkfræðistofa sér um verkfræðihönnun að undanskilinni hljóð- og brunahönnun sem er í höndum Verkíss.

Bygging Helgafellsskóla mun vera stærsta einstaka byggingarframkvæmd Mosfellsbæjar um þessar mundir. Annar og þriðji áfangi skólans er í útboðsferli þessa dagana og verður spennandi að sjá hvaða verktaki hreppir þau verkefni.

Byggingin er í alla staði stórglæsileg. Sjálft húsið er byggt úr forsteyptum „samlokueiningum“, þar sem einangrun kemur á milli innra og ytra byrðis. Þak og gólfplötur yfir 1. hæð eru ýmist staðsteyptar plötur eða holplötur. Hluti þaks yfir 1. hæð verður nýttur sem leikskólaþak fyrir leikskóla 2. hæðar. Þök 2. hæðar eru svokölluð Lett-tak þök. Þar er um að ræða einingar sem fluttar eru inn frá Noregi.

Við hönnun skólans er mikið lagt upp úr hljóðvist og því að nemendum jafnt sem starfsfólki líði vel á vinnustað sínum.

Aðalverktaki Helgafellsskóla er Ístak hf. og framkvæmd lóðar er í höndum Stéttafélagsins ehf.

Heimildir:

yrki.is

mosfellingur.is