Háteigsvegur 36

308797828_6299485993349_7727706227907170847_n

Mynd fylgir af húsinu í dag og einnig mynd af hverfinu sem tekin var um 1940 (ljósm. Helgi Sigurðsson 1903-1971), þar sem Háteigur er vinstra megin á myndinni.

Sögu hússins má rekja til upphafs 20. aldarinnar, til þess tíma þegar farið var að ræsa fram mýrarnar í landi Reykjavíkur og úthluta úr þeim ræktunarlöndum fyrir nýbýli. Eitt þessara býla í Rauðarárholtinu var Háteigur, en bæjarhús Háteigs stóðu ofar í holtinu og á núverandi horni Háteigsvegar og Lönguhlíðar. Gata sem lögð var frá Rauðarárstíg að Háteigi og áfram upp á holtið á þessum tíma var nefnd Háteigsvegur eftir býlinu. Af þeim húsum sem tilheyrðu þessu býli, stendur aðeins eitt þeirra ennþá og heitir í dag Háteigsvegur 36.

Þetta reisulega hús var byggt árið 1920 af hjónunum Halldóri Kr. Þorsteinssyni skipstjóra og útgerðarmanni (1877-1966) og Ragnhildi Pétursdóttur (1880-1961). Halldór og Ragnhildur voru þjóðþekkt fólk, en Halldór var m.a. skipstjóri á Jóni forseta, fyrsta togaranum sem smíðaður var fyrir Íslendinga. Ragnhildur var landskunn fyrir afskipti sín af félags- og menningarmálum og að Háteigi stundaði hún kúabúskap um aldarfjórðungsskeið.

Íbúðarhús þeirra hjóna var teiknaði af Finnur Thorlacius byggingameistari (1883-1974). Á meðal annarra húsa sem Finnur teiknaði má nefna Hverfisgötu 21 sem í dag er íbúðarhótel en var lengi þekkt sem höfuðstöðvar félags bókagerðarmanna. Finnur teiknaði einnig Hverfisgötu 29, danska sendiráðið sem hann byggði einnig. Finnur lauk námi frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1906 sem ,,snikkari’’. Ári síðar hélt hann til Kaupmannahafnar, þar sem hann lærði teikningu og bókleg fög og lauk auk þess sveinsprófi í húsasmíði árið 1908.

Finnur réði sig til Iðnskólans í Reykjavík árið 1911 og kenndi við skólan í 45 ár, auk þess að teikna hús og reisa þau. Hann var mikils metinn kennari við skólann og óhætt að segja að hann hafi haft mikil áhrif á nokkrar kynslóðir húsasmiða á Íslandi.

Fyrst um sinn var húsið að Háteigsvegi 36 hvítmálað og með brúnum gluggalistum/körmum en hluti af gluggunum var í frönskum stíl og á þakinu voru leirflísar. Miklar breytingar urðu á útliti hússins á síðari hluta fjórða áratugarins en þá var húsið steinað að utan með íslenskri steinablöndu, hrafntinnu, kvarsi og silfurbergi og gluggar málaðir hvítir.

Það er gæfa þessa hús að það hefur frá upphafi verið í eigu sömu fjölskyldunnar, sem hefur sinnt viðhaldi þess af alúð og virðingu.

Í þessari viðhaldsvinnu sem Verksýn hafði umsjón með voru m.a. almennar múrviðgerðir, málun á gluggum og húsið var endursteinað. Þar sem ekki er lengur leyfilegt að nota íslensku steinablönduna sem var upphaflega sett á húsið, var lögð mikil vinna í að finna réttu blönduna, sem kæmist næst því að vera upphafleg í útliti og var sú rétta ekki fundinn fyrr en eftir að 16 prufur höfðu verið gerðar. Á bílskúrinn var sett nýtt þak, læst zink klæðing og útveggir bílskúrsins voru steinaðar eins og húsið, að undangengnum viðgerðum.

Verktaki þessara framkvæmda var Flísa- og múrkompaníið ehf, en við hjá Verksýn önnuðumst undirbúning framkvæmdanna og höfðum umsjón og eftirlit með þeim.

Heimildir: Borgarsögusafn Reykjavíkur og B.A. ritgerð Önnu Guðnýjar Gröndal, Búskapur á Háteigi 1920-1940.