Grenimelur 35

13308242_1343249605704437_7100620185984688485_o

Húsið er þrjár hæðir auk rishæðar og stendur á horni Grenimels og Hofsvallagötu. Húsið er hefðbundið fúnkís-stefnu hús, með stórum gluggum í stofum og herbergjum. Þakið er valmaþak. Í upphafi var húsið notað sem íbúðarhús og prjónastofa.

Húsið var byggt árið 1945 og er það því orðið um 71 árs gamalt. Húsið hannaði Halldór H. Jónsson arkitekt, sem um hefur verið fjallað sem „stjórnarformann Íslands“, vegna stjórnarformennsku í Eimskipafélagi Íslands og öðrum fyrirtækjum. Halldór hannaði margar þekktar byggingar á Íslandi, en sem dæmi um þær má nefna Háteigskirkju, Bændahöllina, Kjörgarð og Borgarneskirkju.

Grenimelur 35 er steinsteypt hús, „steinað“ að utan, en litasamsetningar á steiningu eru fjölbreyttar í nágrenninu. Margir litir eru á límefnum og steinmulningi, s.s. rautt, grænt og jafnvel blátt í bland við hefðbundnari liti. Múrhúð hússins var máluð í fyrri framkvæmd, en málningin var hreinsuð af húsinu á síðasta ári með það fyrir augum að endursteina það og færa útlit að upprunalegu horfi. Í húsinu eru hefðbundnir trégluggar og hurðir.

Helstu framkvæmdir sem unnið er að eru endurnýjanir og viðgerðir á gluggum hússins, viðgerðir á múr og steinsteypu og svo verður húsið endursteinað að viðgerðum loknum í sumar. Mikilvægt er að vel sé hugað að viðgerðum áður en til endursteiningar kemur en æskilegt er að sem minnst sé hreyft við yfirborði eftir endursteiningu.

Við framkvæmdina er borin virðing fyrir upprunalegri hönnun hússins. Við framkvæmdir sem þessar gefst einnig tækifæri til að nýta þá framþróun sem hefur orðið í byggingartækni og efnisúrvali frá byggingartíma hússins, ávallt þó með það í huga að lágmarka útlitsbreytingar.

Aðalverktaki við viðhaldsframkvæmdirnar er Múr og ráðgjöf ehf, en Verksýn ehf sá um undirbúning framkvæmda og hefur með þeim umsjón og eftirlit. Framkvæmdir við húsið hófust á vormánuðum og hefur vinnu miðað vel hingað til, enda hefur viðrað vel til framkvæmda nú á vormánuðum. Áætlað er að framkvæmdum við húsið muni ljúka í haust.

Heimildir:

Wikipedia – Halldór H. Jónsson –

Guðfinna Ósk Erlingsdóttir og Bragi Bergsson, 2009, Húsakönnun – Hagamelur – Hofsvallagata – Hringbraut – Furumelur, Reykjavík, Minjasafn Reykjavíkur, Skýrsla nr. 149