Fornhagi 11-17

348630634_271488808648579_3339241666145252902_n

Húsið var fullbyggt árið 1957 skv. fasteignaskrá þjóðskrár og er það því um 66 ára gamalt í dag.

Í nýloknum framkvæmdum var ráðist í umtalsverðar endurbætur á ytra byrði hússins. Helst má þar nefna múr- og steypuviðgerðir, endursteiningu á hluta útveggja, endurnýjun og viðgerðir á gluggum og hurðum, endurnýjun á talsverðum hluta þakjárns, þakrenna, niðurfallsröra o.fl.

Byggingarsamvinnufélag starfsmanna Ríkisstofnana (B.S.S.R.) lét byggja Fornhagablokkina, en húsið var teiknað af Ágústi Steingrímissyni, byggingafræðingi. Upprunalegar teikningar hússins eru frá 1954.

Ágúst Steingrímsson fæddist í Hafnarfirði 23. ágúst 1911. Hann gekk í Flensborgarskólann og lauk prófi í múrsmíði, áður en hann hélt til Svíþjóðar til frekara náms. Hann lauk prófi sem byggingafræðingur frá Tækniskóla Stokkhólmsborgar árið 1936. Hann vann hjá Teiknistofu landbúnaðarins og teiknistofu Skipulagsnefndar ríkisins og Húsameistara ríkisins, en hann rak einnig eigin teiknistofu. Meðal annarra bygginga sem Ágúst teiknaði eru Laugarásbíó, Heilsuhælið í Hveragerði og Hrafnista í Reykjavík, svo dæmi séu tekin. Í húsinu er samtals 31 íbúð í fjórum stigagöngum. Ágúst lést eftir veikindi í janúar 1958, á 47. aldursári.

Frá upphafi hafa íbúar Fornhagablokkarinnar lagt mikla áherslu á að nýta húsakostinn vel og gæta vel að viðhaldi hússins og endurnýjun eftir þörfum. Íbúar huga einnig að umhverfismálum, m.a. með því að hafa matjurtagarð við húsið.

Óhætt er að segja að framkvæmdin hafi tekið prýðisvel og allt samstarf verið til mikillar fyrirmyndar.

Verktaki framkvæmdanna við Fornhaga 11-17 var K16 ehf, en við hjá Verksýn unnum að undirbúningi þeirra og höfðum umsjón og eftirlit með framkvæmdunum fyrir hönd húsfélagsins.

Heimildir:

Fornhagablokkin – heimasíða á vegum íbúa með ýmsum fróðleik o.fl. tengt húsinu: fornhagablokkin.wordpress.com.

”Ágúst Steingrímsson, byggingafræðingur – Minningarorð”, Morgunblaðið 17. janúar 1958, bls. 17. Höf. Hörður Bjarnason, þáv. húsameistara ríkisins.