Fífusel 7-9

275143593_5501918603170829_3969380271422167406_n

Verksýn kom að húsinu undir lok árs 2020 og framkvæmdi á því ástandsskoðun. Í framhaldinu var unnin ástandsskýrsla sem kynnt var fyrir íbúum hússins. Ákveðið var að fara í allsherjar viðhald og endurbætur á húsinu.

Húsið er þriggja hæða fjölbýlishús auk kjallara. Húsið sem er steinsteypt og einangrað að innan, er sléttpússað og málað að utan. Þak hússins er einhalla uppstólað bárujárnsþak.

Húsið teiknaði Njáll Guðmundsson byggingafræðingur og húsasmíðameistari, en hann teiknaði einnig Fífusel 11-13 ásamt bílageymslu fyrir Fífusel 7-23. Njáll fæddist á Böðmóðsstöðum í Laugardalshreppi árið 1929 þar sem hann ólst upp. Eftir að Njáll hafði lagt stund á nám í bæði Íþróttaskóla Sigurðar Greipssonar í Haukadal og Bændaskólanum á Hvanneyri, lærði hann húsasmíði við Iðnskólann í Reykjavík og varð húsasmíðameistari. Eftir að hafa unnið nokkur ár við smíðar fór hann utan og lærði byggingafræði í Danmörku sem hann kláraði árið 1962. Njáll vann við ýmislegt á starfsævinni m.a. við smíði stórskipa í Svíðjóð og hjá Vegagerð ríkisins við brúarteikningar, en lengst af vann hann sjálfstætt við húsateikningar.

Meðal annarra bygginga sem Njáll teiknaði má nefna fjölbýlishúsið Hulduland 9-11 í Reykjavík og þríbýlishús við Suðurmýri 14 og 16 á Seltjarnarnesi. Njáll lést í Reykjavík 30. ágúst 2004.

Fífusel stendur efst í Seljahverfi á svokölluðu háholti þar sem í dag er fjölbýlishúsabyggð. Þessi byggð er reist á grágrýtisási sem teygir sig frá hólahverfi í gegnum fellin og yfir Breiðholtsbrautina. Þess má til fróðleiks geta að í seinni heimstyrjöld reistu Bandaríkjamenn litlar herbúðir í háholti sem saman stóðu af á þriðja tug bygginga ásamt 40 þúsund lítra vatnstanki sem sá hermönnum fyrir drykkjar- og hreinlætisvatni. Á hæsta punkti háholts, Fálkahóli eða „Camp Arlington Hill“ sem er spottakorn frá Fífuseli 7-9, setti hernámsliðið upp 3 loftvarnarbyssur. Í dag eru enginn sjáanleg ummerki af veru hernámsliðsins á svæðinu.

Endurbótum á ytra byrði Fífusels 7-9 lauk síðla árs 2021, en þær hófust um vorið sama ár. Helstu þættir framkvæmda voru múrviðgerðir, endurnýjun á hluta glugga, endurnýjun þakjárns, niðurbrot og endursteypa á svölum, ásamt málun á steyptum flötum.

Aðalverktaki viðhaldsframkvæmdanna í Fífuseli 7-9 er Múr og ráðgjöf ehf. Auk þess að koma að undirbúningi framkvæmdanna, sá Verksýn um umsjón og eftirlit með þeim.

Heimildir:

Fasteignaskrá.

Mbl. 10. sept. 2004. Tímarit.is

Byggðakönnun, Borgarhluti 6 – Breiðholt