Fellsmúli 26

86970460_3256942761001769_4336112515759996928_n

Fellsmúli 26, oft kallaður Hreyfilshúsið, er áberandi hús og að segja má þekkt í borgarmyndinni. Húsið er háreist og stendur á mótum Grensásvegar, Fellsmúla og Miklubrautar.

Um er að ræða 6-7 hæða, steinsteypt hús, þar sem kjallari er að hálfu leyti niðurgrafinn. Sjöunda hæð hússins er inndregin og þar eru þaksvalir yfir hluta 6. hæðar. Samkvæmt upplýsingum frá fasteignaskrá var lokið við byggingu hússins árið 1970 og er

það því hálfrar aldar gamalt um þessar mundir.

Nýlokið er við viðhaldsframkvæmdir á suðurhlið, austur- og vesturgafli hússins, en þær hafa staðið yfir frá því vorið 2019. Suðurhliðin hefur nú verið klædd með sléttri álklæðningu á hefðbundið undirkerfi úr áli en gaflarnir voru múrviðgerðir og að því loknu málaðir. Skipt var um alla glugga suðurhliðar og á vesturgafli, að undanskildum gluggum á 7. hæðinni. Var upprunalegum timbur-veltigluggum skipt út fyrir hefðbundna ál/tréglugga. Einnig var gluggi á austurgafli endurnýjaður.

Fellsmúli 26 var hannaður af Sigvaldi Thordarsyni. Sigvaldi fæddist í Vopnafirði árið 1911. Eftir sveinspróf í húsasmíði árið 1934 lauk hann prófi sem byggingafræðingur frá Det tekniske Selskabs Skole. Arkitektanámi lauk hann frá Listaháskólanum í Kaupmannahöfn eftir síðari heimsstyrjöld.

Eins og áður hefur komið fram í mánaðarpistlum Verksýnar var Sigvaldi afkastamikill á ferli sínum sem hönnuður. Samkvæmt samantekt Loga Höskuldssonar, en hann hefur kortlagt verk Sigvalda, skilur hann eftir sig 297 skráð verk. Þar á meðal Hallveigarstaði, Sjúkrahúsið á Sauðárkróki og auk þess fjölmörg einbýlis-, rað- og fjölbýlishús.

Sigvaldi lést fyrir aldur fram árið 1964, aðeins 52 ára. Óhætt er að segja að hann skipi veigamikinn sess meðal íslenskra hönnuða og er hann ótvírætt einn helsti fulltrúi módernisma í íslenskri byggingarsögu.

Aðalverktaki viðhaldsframkvæmdanna á Fellsmúla 26 var Stjörnumálun ehf. Verksýn hafði með höndum umsjón og eftirlit með framkvæmdunum auk þess að hanna álklæðninguna á suðurhlið hússins.