Borgartúni 6

28422988_2022902177739173_4425622108592864498_o

Gluggaskipti á Borgartúni 6 – „Rúgbrauðsgerðinni“.

Borgartún 6 var reist árið 1947 og er því orðið u.þ.b. 70 ára gamalt. Húsið var byggt sem verksmiðjuhúsnæði af hlutafélagi bakara í því skyni að annast bakstur rúg- og normalbrauða. Félagsmenn voru að mestu bakarar og bakarasveinar og einnig forstjórar fyrirtækja sem þá ráku brauðgerðir. Framleiðsla hófst í húsinu árið 1948 og hýsti það brauðgerð fram til 1970-1971, auk þess sem stór hluti hússins var leigður út. Húsið hefur jafnan gengið undir nafninu Rúgbrauðsgerðin.

Túnin voru fyrsta svæðið í Reykjavík sem skipulagt var sérstaklega sem athafnarsvæði með einkennum samfelldrar borgarbyggðar. Í deiliskipulagi sem unnið var fyrir svæðið á sínum tíma var lögð áhersla á að þétta byggð verslunar- og skrifstofuhúsnæðis á svæðinu. Borgartún 6 mun hafa verið teiknað af Einari Sveinssyni, arkitekt. Einar Sveinsson lærði arkitektúr í Þýskalandi fyrstur íslenskra arkitekta. Hönnun opinberra bygginga var einn umfangsmesti þátturinn í starfsferli hans en meðal þekktra bygginga sem hann hannaði eru Melaskóli og Laugarnesskóli auk fjölda fjölbýlishúsa, m.a. Sólheima 23. Einar var húsameistari Reykjavíkur um 40 ára skeið, þar til hann lést árið 1973.

Hinn 4. apríl 1970 skemmdist Borgartún 6 mikið í eldi og eftir það hætti Rúgbrauðsgerðin rekstri.

Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á húsinu og starfsemi þess í áranna rás. Efsta hæð hússins og risið var innréttað sem ráðstefnusalir ríkisins. Á tímabili voru þar m.a. haldnir sáttafundir í kjaradeilum sem ríkissáttasemjari kom að. Síðar var ris hússins rifið og þakinu lyft til að auka notagildi þess. Einnig var bætt við öðrum turni á vesturenda hússins, en í upphafi var einungis turn á austurendanum. Framhlið hússins er nú friðuð.

Borgartún 6 er steinsteypt bygging, kjallari og fjórar hæðir. Útveggirnir eru steinsteyptir og málaðir. Ýmsar gerðir glugga eru á húsinu, enda hefur hluti glugganna verið endurnýjaður smátt og smátt í gegnum tíðina. Að hluta til eru enn upprunalegir, hefðbundnir trégluggar í húsinu. Í efstu hæðina hafa verið settir álgluggar og þá er eitthvað um plastglugga í húsinu.

Að þessu sinni var ákveðið að skipta um meirihluta glugga á baklið hússins og austurgafli. Settir verða ál/tré gluggar í stað upprunalegra timburglugga. Einnig verða hringlaga gluggar á þessum hliðum endurnýjaðir með álgluggum.

Aðalverktaki framkvæmdanna nú er Ás smíði ehf. Verksýn hefur umsjón og eftirlit með framkvæmdunum.

Heimildir:

wikipedia.org/wiki/Rúgbrauðsgerðin

Mbl. 10. júlí 2006

BAKARINN, Kennslubók og handbók í bakaraiðn

Einar Sveinsson arkitekt – Minning. Mbl. 17. janúar 2005