Bólstaðarhlíð 58-62

16300478_1580679741961421_6661557783518067697_o

Nýlokið hefur verið við andlitslyftingu á Bólstaðarhlíð 58-62 og höfum við valið kynna þá framkvæmd nú í janúar sem framkvæmd mánaðarins. Húsið var hannað af Kjartani Sveinssyni byggingartæknifræðingi og byggt, skv. fasteignaskrá, árið 1963. Það er því orðið rúmlega hálfrar aldar gamalt.

Húsið er 5 hæða hefðbundið steinsteypt og múrhúðað fjölbýlishús og að segja má mjög í takt við byggingarstílinn á austanverðu Rauðarárholti á þessum tíma. Útveggir eru sléttmúraðir og málaðir. Upprunalegir gluggar eru hefðbundnir trégluggar, málaðir með þekjandi viðarvörn. Hurðir eru flestar hefðbundnar tréhurðir, málaðar með þekjandi viðarvörn en aðalinngangar eru úr harðviði. Frontar svalahandriða eru steyptir, með hliðum og handlistum úr ryðvörðu og máluðu stáli.

Húsið var háþrýstiþvegið, gert við múrskemmdir, kanta o.fl. og húsið málað. Gluggar voru endurnýjaðir að stærstum hluta á austurhlið og suðurgafli og var valið að nota álklædda tréglugga í stað upphaflegra tréglugga. Ákveðið var að þessu sinni að mála húsið í gulum, bláum og hvítum lit.

Aðalverktaki framkvæmdanna var K16 ehf. en Verksýn sá um undirbúning framkvæmdanna og hafði með þeim umsjón og eftirlit.

Heimildir:

https://www.skra.is/fasteignaskra/leit-i-fasteignaskra/…

http://borgarsogusafn.is/…/atoms/files/skyrsla_163.pdf