Bollagata 12

106477389_3604109716285070_7947226429857356305_n

Bollagata 12 er stílhreint og snoturt, steinsteypt hús í Norðurmýrinni. Húsið er tvær hæðir, ris og jarðhæð sem er að hluta til niðurgrafin. Samkvæmt upplýsingum frá fasteignaskrá var húsið byggt árið 1943 og er það því um 77 ára gamalt.

Útveggir hússins eru steinsteyptir og kornaðir/skeljaðir. Fyrir framkvæmdirnar nú voru gluggar ýmist upprunalegir ísteyptir eða endurnýjaðir trégluggar. Á þaki hússins var upprunalegt, hefðbundið málað bárujárn. Klætt hafði verið yfir steypta þakrennu með timbri.

Húsið við Bollagötu 12 var teiknað af Magnúsi K. Jónssyni húsasmíðameistara, en hann var um áratugi byggingameistari í Reykjavík. Magnús var fæddur í Miðdal í Laugardal 19. febrúar 1910 en lést í september 2002.

Magnús K. Jónsson reisti fjölda íbúðarbygginga og skóla í Reykjavík. Má þar til dæmis nefna Slökkvistöð Reykjavíkur. Magnús var m.a. einn þeirra sem stóð að byggingu Árnagarðs við Suðurgötu (á lóð Háskóla Íslands). Hann var húsasmíðameistari Áskirkju fram yfir fokheldingu.

Framkvæmdir við Bollagötu 12 hófust snemma árs 2019. Farið var í umfangsmiklar múrviðgerðir á húsinu og það endursteinað í heild. Áður var húsið steinað með skeljasandi en að þessu sinni var ákveðið að breyta um lit og valið að setja á það blöndu af hvítum, gráum og beige-lituðum marmara, hrafntinnulíki og gulum mora. Skipt var um alla þá glugga sem ekki höfðu verið endurnýjaðir í fyrri viðhaldsframkvæmdum. Einnig var skipt um eina inngangshurð og allt tréverk hússins málað.

Skipt var um þak hússins og gerðar á því óverulegar breytingar. Þó þannig að burðarvirki þaksins hefur verið styrkt verulega. Þá var sett á þakið aluzink-bárujárn í stað málaða bárujárnsins. Þakrennum, sem upprunalega voru steyptar, hafði í fyrri framkvæmd verið breytt á þann hátt að klætt hafði verið yfir þær með timbri. Í framkvæmdunum nú var ákveðið að brjóta þakrennurnar niður og endursteypa þær og þar með koma þeim í upprunalegt horf. Þá voru sett hvíthúðuð ál-niðurfallsrör á húsið.

Viðhaldsframkvæmdirnar nú hófust snemma árs 2019, eins og fyrr segir en eru „á lokametrunum“.

Aðalverktaki viðhaldsframkvæmdanna á Bollagötu 12 er ÁÁ verktakar en Verksýn vann að undirbúningi framkvæmdanna auk þess að hafa umsjón og eftirlit með þeim.

Heimildir:

askirkja.is/5-2/saga-askirkju/

Morgunblaðið. (2002, 12. september). Minningargreinar. Mbl.is