Bogahlíð 8-10

74647553_3020438847985496_4397339301789040640_n

Um er að ræða 4ra hæða, steinsteypt fjölbýlishús (3 hæðir auk kjallara), með einhalla þaki. Útveggir hússins eru steinsteyptir og pokapússaðir en flestir veggfletir eru klæddir með loftræstri útveggjaklæðningu (steni) á timburgrind. Inndregnir fletir á vesturhlið, anddyri og stoðveggir á austurhlið eru sléttpússaðir og málaðir. Gluggar Bogahlíðar 8-10 voru upprunalega flestir hefðbundnir trégluggar, ýmist ísteyptir eða með síðari tíma endurnýjun og þeir málaðir með þekjandi viðarvörn. Hluti upphaflegu tréglugganna hefur nú verið leystur af hólmi með ál/trégluggum.

Samkvæmt upplýsingum frá fasteignaskrá var lokið við byggingu hússins árið 1967 og er það því orðið 52 ára gamalt.

Í viðhaldsframkvæmdunum sem fóru fram á árinu 2018 var gert við gluggana í húsinu og hluti þeirra endurnýjaður með ál/trégluggum, eins og fram er komið. Horfið var frá veltiglugga-útfærslu sem áður var á framhliðinni að mestu og ákveðið að setja lóðrétta pósta í gluggana.

Svalir eru á bakhlið hússins, en komið var að viðhaldi á þeim. Oft eru fleiri en ein leið sem koma til greina við viðhald á svölum. Leiðin sem eigendur Bogahlíðar 8-10 völdu að fara, var að setja upp svalalokanir með hertu, færanlegu gleri á brautum. Álkerfi svalalokananna var húðað í sama gráa lit og gluggarnir í húsinu. Svalahandrið byggingarinnar voru hækkuð til samræmis við ákvæði í núgildandi reglugerð um lágmarkshæð svalahandriða. Þá var skipt um niðurföll á svölum og svalirnar málaðar. Á efstu hæð hússins var byggt upp þak yfir svalirnar og þeim síðan lokað á sama hátt og annars staðar í húsinu.

Þorvaldur Kristmundsson arkitekt hannaði Bogahlíð 8-10. Þess má geta að Þorvaldur þessi tók drjúgan þátt í uppbyggingu iðnaðarhverfisins á Skeifusvæðinu í Reykjavík (Skeifan 11, 13, 15, 17 og 19) á sjöunda áratug síðustu aldar. Sú byggð var hönnuð til að svara mikilli eftirspurn eftir hagkvæmu húsnæði fyrir lítil iðnfyrirtæki í borginni. Athafnasvæðið í Skeifunni byggðist upp í nokkrum áföngum en um byggingarnar var stofnað hlutafélagið Iðngarðar hf. (1962). Teiknaði Þorvaldur húsin í módernískum stíl, eftir frumdrögum Sigvalda Thordarsonar arkitekts. Einnig hannaði hann á 9. áratugnum, verslunar- og skrifstofuhúsnæði í Faxafeni 8, 10, 12 og 14, ásamt Magnúsi Guðmundssyni húsateiknara. Þá hannaði Þorvaldur safnaðarheimili Laugarneskirkju, einbýlishús víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu og fleiri byggingar.

Framkvæmdunum við Bogahlíð 8-10 lauk í lok árs 2018 og verður ekki annað sagt en að þær hafi heppnast mjög vel. Svalalokanir sem þessar auka almennt notagildi svala til muna auk þess sem þær setja mikinn svip á ásýnd húsa.

Aðalverktaki framkvæmdanna var Ás Smíði ehf. Verksýn annaðist umsjón og eftirlit með framkvæmdunum.

Heimildir:

Borgarsögusafn, húsakönnun. Skeifan iv. mbl.is