Bogahlíð 24-26

35963498_2154880064541383_5609981854200365056_n

Um er að ræða steinsteypt og grófmúrað fjölbýlishús. Það var byggt árið 1956 og er því orðið u.þ.b. 62 ára gamalt. Húsið var teiknað af Sigvalda Thordarsyni, arkitekt og byggingafræðingi, en hann var afkastamikill hönnuður á þessum tíma.

Í framkvæmdunum núna var ákveðið að gera upp alla glugga í húsinu, þ.e.a.s. skipta um hluta glugganna í bland við viðgerðir á öðrum. Einnig er unnið að endurnýjun á léttum timburgrindum sem staðsettar eru á milli stigagangsglugga, en þær setja mikinn svip á húsið. Flestallir gluggar hússins eru póstalausir, en segja má að það gefi framhliðinni einkennandi yfirbragð.

Viðgerðir við húsið eru á framkvæmdastigi. Er nú unnið að múrviðgerðum en að þeim loknum verður húsið málað. Síðast var það málað í hvítum, gulum og dökkgráum lit en hvaða litasamsetning verður fyrir valinu nú, mun enn ekki hafa verið ákveðið. Aðalverktaki framkvæmdanna er Vilhjálmur Húnfjörð ehf.

Hinn kunni arkitekt og byggingafræðingur, Sigvaldi Thordarson teiknaði Bogahlíð 24-26, eins og fram er komið. Sigvaldi var Húnvetningur og Norður-Þingeyingur að uppruna, en fæddur í Vopnafirði árið 1911. Eftir iðnaskólapróf í Reykjavík 1933 lauk hann sveinsprófi í húsasmíði 1934. Arkitektanámi lauk hann frá Arktitektaskóla Listaakademíunnar í Danmörku.Sigvaldi rak teiknistofu í Reykjavík og var á tímabili forstöðumaður Teiknistofu SÍS.

Sigvaldi var vinsæll arkitekt og afkastamikill á stuttri starfsævi, sem spannaði 20 ár. Þykja hús hans vera glæsileg og afar vel skipulögð. Samkvæmt samantekt Loga Höskuldssonar, en hann hefur kortlagt verk Sigvalda, skilur hann eftir sig 297 skráð verk. Þar á meðal mörg fjölbýlishús sem m.a. voru hönnuð fyrir byggingasamvinnufélög, starfsmannahús SÍS og raðhús í Kópavogi, Sjúkrahúsið á Sauðárkróki og Hallveigarstaði auk fjölda einbýlishúsa, svo að eitthvað sé nefnt.

Sigvaldi var aðeins kominn stutt á sextugsaldurinn þegar hann lést, árið 1964. Óumdeilt er að hann var merkur fulltrúi módernismans í íslenskri byggingarlist.

Verksýn ehf. sá um undirbúning framkvæmdanna og hefur með þeim umsjón og eftirlit.

Heimildir:

ruv.is/frett/sigvaldahusin_i_baenum

ruv.is/frett/samfelagsmedvitadur-arkitekt-0

mbl.is/greinasafn/grein/804763/