Blönduhlíð 27

135779903_4152767398085963_3226577919168517260_n

Framkvæmdum þar er nú lokið, en síðastliðið sumar var þakklæðning hússins endurnýjuð ásamt þakpappa, niðurfallsrörm o.fl. Gluggar í kvistum voru endurnýjaðir ásamt þakgluggum. Þá var endurnýjað nokkuð af gluggum í veggjum á neðri hæðum auk ýmissa annarra framkvæmda við húsið.

Þak hússins er svipað og önnur í hverfinu, bratt og nokkuð flókið. Mikið er um skurði og litla fleti, kvisti og þakglugga. Sett var hefðbundið ólitað aluzink járn á þakið og en það efni þekkist vel á silfurleitum lit sínum og er algengt til notkunar við bæði ný og endurnýjuð bárujárnsþök.

Blönduhlíð 27 er steinsteypt fjögurra íbúða hús, með tveimur hæðum, kjallara og risi. Gluggar hússins eru trégluggar, en í framkvæmdunum nú voru settir álklæddir trégluggar á rishæðina, helst vegna minni viðhaldsþarfar þeirra.

Húsið var skv. fasteignaskrá byggt árið 1950 og er það því orðið um 70 ára gamalt. Húsið hannaði Hafliði Jóhannsson húsasmíðameistari. Hann fæddist árið 1906. Hafliði lærði smíðar hjá föður sínum, Jóhanni Hafliðasyni. Á starfsævinni fékkst hann bæði við byggingar og verktakastarfsemi, en einnig hönnun húsa. Í mörgum tilvikum tók hann að sér bæði hönnun og svo byggingu húsanna sjálfra. Hann átti ekki kost á því að læra arkitektúr erlendis, en sótti sér framhaldsmenntun á Íslandi hjá Finni Thorlacius og Ríkharði Jónssyni, ásamt því að kynna sér húsagerðarlist í nágrannalöndum.

Sem dæmi um hús hönnuð af Hafliða má nefna Grenimel 15-17, Reynimel 36-38 og 40-42, Rauðarárstíg 5-9 og fjölda húsa við Miðtún og Hátún í Reykjavík. Líklega hefur hann einnig byggt nokkurn fjölda þessara húsa m.v. aðrar heimildir. Hafliði Jóhannsson lést árið 1988, 81 árs að aldri.

Verktaki framkvæmdanna í sumar var Smíða ehf, en Verksýn sá um undirbúning þeirra ásamt umsjón og eftirliti með þeim.