Í húsinu eru 8 íbúðir og það var fullbyggt á árunum árin 1949 og 1951 skv. fasteignaskrá þjóðskrár og er því 72-74 ára gamalt í dag.
Framkvæmdirnar snéru að viðhaldi og endurbótum á ytra byrði. Ráðist var í múr- og steypuviðgerðir, endursteypu á svölum, endurnýjun / viðgerðir á gluggum og hurðum, endurnýjun á niðurfallsrörum, endurmálun þaks o.fl. Að lokum var húsið endursteinað.
Barmahlíð 35-37 teiknaði Einar Ingibergur Erlendsson húsameistari, sem fæddist árið 1883 í Reykjavík. Einar lauk sveinsprófi í trésmíði og nam húsagerðarlist í Kaupmannahöfn. Einar var aðstoðarmaður og staðgengill bæði Rögnvaldar Ólafssonar, sem var ráðunautur landsstjórnar í húsagerð, sem og Guðjóns Samúelssonar húsameistara ríkisins. Hann gengdi síðan embætti húsameistara ríkisins eftir fráfall Guðjóns, frá 1950 og fram að starfslokum árið1954. Einar Erlendsson teiknaði fjöldann allan af þekktum byggingum. Meðal annara má þar nefna Fríkirkjuveg 11 fyrir Thor Jensen kaupmann, Íslensku Óperuna (Gamla bíó), Þingholtsstræti 29a (Esjuberg), Herkastala Hjálpræðishersins við Kirkjustræti 2, Austurstræti 14 auk fjölmargra annarra bygginga, en Einar hefur verið kallaður faðir steinsteypuklassíkur á Íslandi. Einar Erlendsson húsameistari lést árið 1968.
Verktaki framkvæmdanna við Barmahlíð 35-37 var Múrkompaníið ehf, en við hjá Verksýn unnum að undirbúningi þeirra og höfðum umsjón og eftirlit með framkvæmdunum fyrir hönd húsfélagsins.
Heimildir:
”Húsameistari í hálfa öld – Einar I. Erlendsson og verk hans” Höfundur Björn G. Björnsson. Útgefandi: Hið íslenska bókmenntafélag 2022.
Lesbók Morgunblaðsins, 26. september 1998, Sigríður Björk Jónsdóttir, ”Íslensk steinsteypuklassík í verkum Einars Erlendssonar”.