Álfheimar 50-54

245283098_6254232557785_8557325961511505564_n

Framkvæmdir mánaðarins í ágúst eru viðhaldsframkvæmdir við Álfheima 50-54. Húsið var skv. fasteignaskrá fullbyggt árið 1961 og er það því orðið 60 ára gamalt. Í því eru 29 íbúðir.

Álfheimar 50-54 er 4-5 hæða steinsteypt fjölbýlishús með risi og kjallara undir tveimur af þremur stigagöngum. Útveggir þess eru steinsteyptir og málaðir og upprunalegir gluggar ísteyptir trégluggar. Á þaki hússins er hefðbundið bárujárn.

Helstu framkvæmdir við húsið fólust í endurnýjun á töluverðum hluta glugga hússins og þakklæðningar þess. Framkvæmdar voru múr- og steypuviðgerðir á húsinu ásamt háþrýstiþvotti og ytra byrði þess síðan málað, bæði steinsteyptir byggingarhlutar, tré- og blikkverk.

Húsið teiknaði Sigvaldi Thordarson arkitekt. Sigvaldi var Húnvetningur og Norður-Þingeyingur að uppruna, en fæddur í Vopnafirði árið 1911. Eftir iðnskólapróf í Reykjavík 1933 lauk hann sveinsprófi í húsasmíði 1934. Hann lauk svo prófi í byggingafræði árið 1939. Arkitektanámi lauk hann svo frá Listaakademíunni í Kaupmannahöfn. Sigvaldi var vinsæll arkitekt og afkastamikill á stuttri starfsævi, sem spannaði 20 ár. Þykja hús hans vera glæsileg og afar vel skipulögð. Þar á meðal mörg fjölbýlishús sem m.a. voru hönnuð fyrir byggingasamvinnufélög og verktaka, Ægisíðu 80, starfsmannahús SÍS og raðhús í Kópavogi, Sjúkrahúsið á Sauðárkróki og Hallveigarstaði auk fjölda einbýlishúsa, svo að eitthvað sé nefnt. Sigvaldi lést aðeins 52 ára gamall árið 1964.

Verktaki framkvæmdanna var ÁS Smíði ehf, en Verksýn sá um undirbúning þeirra ásamt umsjón og eftirliti með þeim.

Heimildir:

Fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands

ruv.is/frett/sigvaldahusin_i_baenum

ruv.is/frett/samfelagsmedvitadur-arkitekt-0

mbl.is/greinasafn/grein/804763/