Húsið er 4 hæða steinsteypt fjölbýlishús með 9 íbúðum. Það var byggt árið 1983 og er það því orðið 33 ára gamalt í ár. Húsið er með tvíhalla stölluðu þaki og með gluggum og hurðum úr tré, en það var hannað af Kjartani Sveinssyni, byggingartæknifræðingi.
Óhætt er að segja að mikill „Kjartans-svipur“ sé á útliti hússins. Er hér átt við t.d. þakkant hússins, sem er klassískur „Kjartanskantur“, yfirborð veggja er ýmist hraunað eða sléttmúrað og steinsteypa er ráðandi í útliti þess, t.d. við svalir hússins.
Framkvæmdum er svo gott sem lokið, en þær fólu í sér viðgerðir og yfirferð á öllu ytra byrði hússins – útveggjum, svölum, gluggum, hurðum, þaki o.fl. Að viðgerðum loknum var húsið málað og hraunaðir útveggir voru sílanbornir.
Aðalverktaki við framkvæmdina var Stjörnumálun ehf, en undirbúningur framkvæmda var unnin af okkur hjá Verksýn og höfðum við einnig umsjón og eftirlit með framkvæmdunum.