Hagamelur 41-45

46994428_2406558979373489_1525068248867930112_n

Hagamelur 41-45 er 6 hæða, steinsteypt fjölbýlishús, og er kjallarinn að hálfu leyti niðurgrafinn. Samkvæmt upplýsingum frá fasteignaskrá var lokið við byggingu hússins árið 1957 og er það því orðið rúmlega 60 ára gamalt.

Útveggir Hagamels 41-45 eru steinsteyptir og yfirboðið að langmestu leyti steinað með marmarasalla. Á svölum eru steinsteypt skrauthandrið sem setja mikinn svip á þá hlið hússins sem snýr að Hofsvallagötu. Gluggarnir á Hagamel 41-45 eru trégluggar, málaðir með þekjandi viðarvörn. Aðaldyrnar eru úr harðviði en aðrar sameignarhurðir og svalahurðir eru málaðar með þekjandi viðarvörn. Á þaki hússins og á skáhallandi fleti efstu hæðar þeirrar hliðar sem snýr að bílastæðum hússins er aluzink bárujárn.

Skáflötur efstu hæðar gefur umræddri hlið virðulegt yfirbragð. Slíkir skáfletir, auk skrauthandriðanna sem áður er minnst á voru nokkuð vinsæl hönnun m.a. í Vesturbæ Reykjavíkur á sjötta áratug síðustu aldar og í byrjun þess sjöunda.

Viðhaldsframkvæmdirnar nú eru á lokastigi. Mikill hluti glugga hefur verið endurnýjaður, ásamt þakkanti á þeirri hlið hússins sem snýr að Hofsvallagötu. Aðrir hlutar þakkants og glugga hafa verið málaðir og skipt hefur verið um niðurfallsrör á húsinu. Þá hafa fletir inni á svölum verið málaðir. Auk þessa voru framkvæmdar sprungu- og múrviðgerðir á húsinu og húsið allt endursteinað.

Steining er íslensk aðferð, og gamalreynd við frágang útveggja í flestum bæjum landsins. Einkennir hún steinsteypt hús hér á landi frá tímabilinu 1930-1960. Þessi aðferð hefur reynst vel, þar sem hún myndar öfluga veðurkápu utan um íslensk hús og endist jafnan lengur en málning. Auk þess býður aðferðin upp á margar litasamsetningar og veitir byggingunum sérstakt útlit.

Steining felur í sér húðun veggja með þunnri múrhúð (eða steinlími) sem á er kastað steinmulningi af mismunandi gerð. Á Hagamel 41-45 nú var valinn marmarasalli, blandaður með graníti og fleiri steintegundum. Í framkvæmdunum öllum hefur verið lögð áhersla á að halda í útlit hússins, eftir því sem kostur hefur verið.

Gísli Halldórsson byggingafræðingur og arkitekt (1914-2012) teiknaði Hagamel 41-45. Gísli lauk sveinsprófi í húsasmíði árið 1935. Hann fór til náms í Danmörku árið 1935. Lauk hann prófi sem byggingafræðingur frá Det Tekniske Selskabs Skole í Kaupmannahöfn árið 1938. Síðan nam hann arkitektúr í Det Kongelige Akademi for de Skønne Kunster. Mun hann hafa þurft að gera hlé á námi sínu þegar seinni heimsstyrjöldin skall á, 1940. Þá flutti hann aftur til Íslands ásamt danskri eiginkonu sinni Inger Margréti Erichsen og syni þeirra Leifi. Útskrifaðist Gísli sem arkitekt árið 1947.

Gísli starfrækti eigin teiknistofu í félagi við Sigvalda Thordarson arkitekt til ársins 1948 en síðar einn til ársins 1957. Meðal húsa sem Gísli teiknaði eru Laugardalshöll, Hótel Loftleiðir, Lögreglustöðin í Reykjavík og Tollstöðvarhúsið. Einnig teiknaði hann mörg íbúðarhús við Tómasarhaga, þ.á.m. eigið hús. Það stendur á horni Tómasarhaga og Dunhaga, en í garðhúsi þar bakatil hafði hann jafnframt vinnustofu um árabil. Haft hefur verið á orði þetta íbúðarhús við Tómasarhagann sé eitt af merkustu verkum Gísla.

Eftir árið 1957 rak Gísli teiknistofu sína sem sameignarfélag með nokkrum samstarfsmönnum. Er teiknistofan enn starfandi (2018), undir nafninu T.ark Arkitektar ehf.

Aðalverktaki viðhaldsframkvæmdanna á Hagamel 41-45 er Stjörnumálun ehf. en Verksýn hefur haft með höndum undirbúning, umsjón og eftirlit með framkvæmdunum.

Heimildir:

Ari Trausti Guðmundsson, Flosi Ólafsson, Magnús Skúlason. (2003, mars). Steinuð hús. Varðveisla, viðgerðir, endurbætur og nýsteining. Ritröð Húsafriðunarnefndar ríkisins.

Fasteignaskrá.

Andlát: Gísli Halldórsson. (2012, 10. október). Mbl.

Mörður Árnason. (2012, 17. september). DV, Gísli Halldórsson – In memoriam.

Stefán Árni Pálsson. (2017, 22. maí). Visir.is, Falleg íslensk heimili.